Skemmtileg morgunverðarpizza fyrir alla fjölskylduna

Morgunverðarpizzan á eftir að slá í gegn hjá fjölskyldunni.
Morgunverðarpizzan á eftir að slá í gegn hjá fjölskyldunni. Popsugar.com

Morgunverðurinn er mikilvægasta máltíð dagsins eins og allir vita og því alltaf skemmtilegt og þakklátt þegar morgunverðurinn er poppaður upp og úr verður glimrandi fjölskyldustund sem engan svíkur.

Morgunverðarpizza er ein af þessum máltíðum sem sameinar allt ofangreint. Flestir elska pizzu og nær allir borða morgunmat. Morgunverðarpizzan er sérlega heppileg sumarbústaðar- eða helgarfæða og oft myndast svakaleg stemning – bæði við gerð hennar og þó aðallega við átið á henni. Fyrir þá sem búa einir er þetta ekki verri hugmynd, sérstaklega ekki ef viðkomandi vaknar með hausverk – af einhverjum ástæðum!

Einföld er hún en svíkur engan og gefur svo sannarlega lífinu lit.

Tilbúið pizzudeig (til að hafa þetta sem allra auðveldast)
4 egg
60 ml mjólk
Salt og pipar
1 bolli mozzarella-ostur
Beikon
Tómatur eða annað grænmeti, saxað fremur smátt.

Leiðbeiningar:

1. Hitið ofninn í 200 gráður og fletjið pizzudeigið út. Gaman er að fá börnin til að hjálpa til við að fletja deigið út. Munið að stinga í það með gaffli til að það komi ekki stórar loftkúlur. Reynið að fletja deigið út þannig að brúnirnar verði þykkari og þær myndi hálfgerðan kant.

2. Pískið saman eggin og mjólkina, kryddið með salti og pipar. Hellið blöndunni yfir deigið (mikilvægt er að hafa ágætiskant á pizzunni til að eggjablandan sullist ekki út fyrir).

3. Stráið ostinum yfir og setjið síðan nokkrar sneiðar af beikoni yfir.

4. Bakið í 10-12 mínútur eða þar til eggjablandan og beikonið eru fullelduð.

5. Stráið tómötunum eða öðru ferskmeti yfir og berið fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert