Dúnmjúkur steinbítur í rjómasósu að hætti Nönnu

Steinbítur í papríkurjómasósu með grænmeti. Einstaklega girnilegt!
Steinbítur í papríkurjómasósu með grænmeti. Einstaklega girnilegt! Nanna Rögnvaldar

Matargoðið Nanna Rögnvaldar birti þessa girnilegu uppskrift á síðunni sinni í gær. Fullkomin fiskréttur í þriðjudagsrigningu. „Þegar ég var yngri fékk maður stundum að heyra að fólk yrði gáfað af því að borða fisk. Ef það skyldi nú vera rétt (maður veit aldrei), þá hef ég verulegar áhyggjur af gáfnafari Íslendinga á næstu áratugum því að það hefur dregið verulega úr fiskáti. Reyndar er vafasamt fyrir mig að halda fram kenningum um tengsl fiskáts og gáfnafars því sjálf borðaði ég ekki mikið af fiski á yngri árum; ekki á meðan við áttum heima í sveit allavega. Að vísu kom stundum ýsa með mjólkurbílnum, jafnvel stöku sinnum aðrir fiskar, en þetta var nú kannski ekki ferskasti fiskur sem hugsast gat.

En ég hef nú reynt að bæta þetta upp á seinni árum og alveg sérstaklega undanfarinn áratug eða svo. Enda finn ég hvernig ég verð sífellt klárari í kollinum … Og ég tala nú ekki um hvernig ég verð örugglega þegar febrúar er liðinn og ég búin að borða fisk á hverjum degi í heilan mánuð. Núna síðustu vikuna er ég til dæmis búin að hafa ofnbakaðan saltfisk, með kartöflum, tómötum, papriku, ólíum og rúsínum; rækjusalat með eggjum og smjörbaunum; steiktan þorsk með basilíku-steinseljupestói, kartöfluteningum og spergilkáli; rækjupasta í basilíku-hvítlauks-smjörsósu; steiktan lax með sellerírótar-perustöppu og grænum baunum; og núna áðan var ég með steinbít með spergilkáli og kúrbít í paprikusósu. Og það er einmitt hann sem ég ætla að setja hér núna.

Þetta er lítil uppskrift því ég eldaði bara fyrir mig (með smáafgangi til að hafa í nestið á morgun) en það er ekkert mál að stækka hana.“

Steinbítur og grænmeti í paprikusósu

200-250 g steinbítur

pipar

salt

1/2 kúrbítur

100 g spergilkál

2 vorlaukar

1 msk olía

1 msk smjör

1/2 krukka grilluð paprika (ekki olían)

lófafylli af basilíkublöðum

100 ml rjómi

Ég var semsagt með rúm 200 g af steinbít, litlu og þunnu flaki, sem ég skar í nokkur stykki og kryddaði með pipar og salti og lét bíða smástund.

Ég byrjaði á að taka hálfan kúrbít, svona 100 g af spergilkáli og 2 vorlauka. Skar kúrbítinn í frekar þunnar sneiðar, skipti spergilkálinu í litla kvisti (tók stönglana frá og nota þá í annað) og skar vorlaukana niður. Svo hitaði ég 1 msk af olíu á lítilli pönnu og setti grænmetið á hana.

Ég steikti grænmetið við meðalhita í nokkrar mínútur, þar til það fór að mýkjast; sneri kúrbítssneiðunum og velti spergilkálskvistunum til að steikingin yrði jöfn. Svo hellti ég grænmetinu af pönnunni á disk.

Setti svo pönnuna aftur á hitann og bætti 1 msk af smjöri á hana. Svo setti ég fiskinn á pönnuna og steikti hann við góðan hita í 1 1/2-2 mínútur áður en ég sneri honum.

Á meðan tók ég krukku af grillaðri papriku og setti svona helminginn af paprikunni (ekki olíunni) úr henni í litlu matvinnsluvélina mína (eða blandara, eða það má bara nota töfrasprota) ásamt lófafylli af basilíkublöðum og maukaði saman. Hellti svo 100 ml af rjóma út í og þeytti saman við.

Þegar ég var búin að snúa fiskstykkjunum setti ég grænmetið aftur á pönnuna og hellti svo paprikurjómablöndunni yfir. Lét þetta malla í svona 2 mínútur, eða þar til fiskurinn var rétt eldaður í gegn.

Ég lét nægja að hafa salat með þessu. En það mætti líka hafa soðin hrísgrjón, bygg eða eitthvað slíkt. Nú, eða kartöflur.

Þetta var nú alls ekki slæmt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert