Opna gullfallegan bar-bakarí á Hverfisgötu

Nöfnurnar og vinkonurnar Júlía Hvanndal Einarsdóttir og Julia Mai Linnéa …
Nöfnurnar og vinkonurnar Júlía Hvanndal Einarsdóttir og Julia Mai Linnéa Maria frá Svíþjóð í bar-bakaríinu Julia & Julia. Ljósmyndir/Martin Månsson

Nöfnurnar og vinkonurnar Júlía Hvanndal Einarsdóttir og Julia Mai Linnéa Maria frá Svíþjóð eru við það að opna bar-bakaríið Julia & Julia í Safnahúsinu við hliðina á Þjóðleikhúsinu við Hverfisgötu í Reykjavík.

Þær leggja áherslu á heimabakstur að hætti ömmu, segja að það sé aldrei of snemmt að fá sér freyðivín, og bjóða upp á dögurð (e. brunch), hádegisverð og kaffi og aðra drykki frá morgni til kvölds eða á opnunartíma safnsins.

Heimilislegt umhverfi

Andrúmsloftið er sérstaklega gott í Safnahúsinu og vinkonurnar leggja áherslu á heimilislegt umhverfi, að færa heimilið til almennings í þessu vinalega og friðaða húsi. Þær hafa hugsað fyrir öllu með það að leiðarljósi að gestir finni fyrir ró í dempaðri birtunni á staðnum.

„Okkur finnst gaman að baka og gera vel við gesti í mat og drykk og með þessum nýja stað viljum við gefa öðrum en fjölskyldum okkar og vinum færi á að njóta þess sem við gerum best,“ segir Júlía.

Endurspegla hvor aðra

Vinkonurnar heita ekki aðeins sama nafni heldur segjast hugsa að mörgu leyti eins og eiga sér sömu drauma. „Við höfum báðar til dæmis lært húsgagnasmíði,“ segja þær í kór og benda á að þær hafi líka margra ára reynslu af því að vinna við þjónustustörf. „Við erum báðar svolítið ömmulegar í hugsun, pössum vel inn í hlýlega og fallega umhverfið hérna og munum gefa af okkur eins vel og við getum,“ segir Júlía.

Stundum er sagt að alltaf sé best að koma í mat og kaffi til ömmu og Júlíurnar vilja endurspegla það umhverfi. „Við erum bæði með sænskt og íslenskt bakkelsi sem er hvergi í boði nema hjá ömmu,“ segir Julia Mai. „Við bjóðum upp á dæmigerðar ömmuveitingar,“ áréttar Júlía og vísar meðal annars á sérstakan barnamatseðil í því sambandi.

Júlía og Julia hafa lengi rætt um að opna eigin veitingastað og hafa hlutirnir gengið hratt fyrir sig síðan þær fengu húsnæðið fyrir nokkrum vikum, en síðan þá hafa þær unnið að því að uppfylla öll skilyrði vegna rekstursins og opna sennilega á morgun.

Til að byrja með verður opið daglega frá klukkan 10 til 17. „Þetta er hús okkar allra og með bar-bakaríinu viljum við árétta það,“ segir Julia Mai. „Allir eiga erindi í Safnahúsið og á Julia & Julia eru allir velkomnir.“

Nöfnurnar leggja mikið upp úr heimabökuðu bakkelsi og hugsað er …
Nöfnurnar leggja mikið upp úr heimabökuðu bakkelsi og hugsað er fyrir hverjum hlut.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert