Hinn fullkomni konudagsmorgunverður

Skreytingar gera líka mikið fyrir morgunverðarbakkann og svo er aldrei …
Skreytingar gera líka mikið fyrir morgunverðarbakkann og svo er aldrei verra að vera með gjöf. Skjáskot - Kitchn

Það er fátt huggulegra en að vakna við að fá morgunverð í rúmið en það verður að viðurkennast að það er ekki sama hvað það er. Hér eru nokkrar skotheldar hugmyndir til að tryggja það að konudagsmorgunverðurinn slái í gegn þetta árið en eins og vonandi flestir vita er konudagurinn á morgun sunnudag.

1. Heitur drykkur. Sumir komast ekki í gang á morgnana án þess að fá sinn heita koffínhlaðna drykk. Þetta getur bæði átt við um kaffi eða te. Mikilvægt er að meta hversu nauðsynlegur heiti drykkurinn er og hvort stemning sé að skipta honum út fyrir heitt súkkulaði (það þykir sjaldnast góð hugmynd nema um hreinræktaðan súkkulaðiunnanda sé að ræða). Ef heitur drykkur er algjört „möst“ skal splæst í virkilega gott kaffi eða te.

2. Lítil jógúrtskál með ferskum berjum eða ávöxtum. Kannski örlítið af múslí eða granóla með. Flestum þykir gott að fá smá ferskt með morgunverðinum. Ef það er strangt glúteinleysi er í gangi er sniðugt að bjóða upp á þessa dásemd hér að neðan.

Þessi getur ekki klikkað.
Þessi getur ekki klikkað.

3. Ristað brauð. Sumar konur geta ekki byrjað daginn án þess að fá sér ristað brauð. Ef svo er skaltu vinna með það og bæta aðeins í áleggið. Kannski fínan ost eða reyktan lax.

4. Egg og beikon. Elskar hún beikon? Þá er fátt sem toppar örlítið af hrærðum eggjum og smá beikon með. Má alls ekki vera of mikið en algjörlega nauðsynlegt sé beikon á annað borð vinsælt.

5. Pönnukökur eða vöfflur. Hér er almennt átt við amerískar pönnukökur en gömlu góðu íslensku vöfflurnar eru líka einstaklega viðeigandi. Prófið þó að setja eitthvað annað en sultu og rjóma á þær. Það er full þungt í morgunsárið.

Ef amerískar pönnukökur verða fyrir valinu er gott að bjóða …
Ef amerískar pönnukökur verða fyrir valinu er gott að bjóða upp á ferska ávexti og síróp með þeim.

6. Ferskur drykkur. Hér má splæsa í smá tilþrif en það veltur alfarið á ykkur hvort notað er freyðivín/kampavín eða sódavatn. Mikilvægt er þó að bjóða upp á mímósu en fyrir þá sem ekki eru með það á hreinu er mímósa blanda af appelsínusafa og kampavíni í jöfnum hlutföllum. Hægt er að nota freyðivín í staðinn eða sódavatn fyrir þær sem ekki vilja neyta áfengis svo snemma dags – eða bara aldrei, en sé kampavínsást til staðar er fátt meira smart en að kaupa litla kampavínsflösku og hafa með á morgunverðarbakkanum.

7. Sæt synd. Það er alltaf gott að enda morgunverðinn á sætum bita. Auðvitað er hægt að hefja morguninn á bakstri en það má líka sækja það til sérfræðinganna en velflest bakarí bjóða upp á huggulegheit í boði dagsins eins og makkarónurnar sívinsælu eða bollaköku frá 17 sortum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert