Dýrðlegur kjúklingur-caprese að hætti Drafnar

Dröfn fer með lesendur sína til Ítalíu með þessum auðvelda …
Dröfn fer með lesendur sína til Ítalíu með þessum auðvelda og girnilega kjúklingarétti. eldhussogur.com

Það er full ástæða til þess að vera með matarást á Dröfn matarbloggara á Eldhussogur.com. Hún gefur okkur reglulega ástæður til þess en hér er sú nýjasta. 

„Uppskrift dagsins er ofsalega einfaldur og góður kjúklingaréttur. Caprese er þekktur ítalskur réttur, oftast forréttur, með ferskum mozzarellaosti, tómötum, basiliku, ólífuolíu, salti og pipar. Hér eru þessi hráefni notuð með kjúklingi og úr verður fljótgerður og gómsætur kjúklingaréttur,“ segir Dröfn í færslu dagsins.

Rétturinn skartar dásamlegum steiktum tómötum með hvítlauk og balsamediki.
Rétturinn skartar dásamlegum steiktum tómötum með hvítlauk og balsamediki. eldhussogur.com

Uppskrift:

  • 4 kjúklingabringur
  • Pasta Rossa-krydd frá Santa Maria (eða annað gott krydd)
  • salt & pipar
  • 2 msk. ólífuolía
  • 4 hvítlauksrif (pressuð)
  • 250 g kokteiltómatar, skornir í tvennt
  • 1 msk. balsamedik
  • ca. 20-30 g fersk basilika, laufin söxuð gróft
  • 240 g ferskur mozzarella-ostur (2 kúlur), skorinn í fremur þunnar sneiðar

Kjúklingabringurnar kryddaðar með pastakryddinu, salti og pipar. Um það bil 1 msk. af olíu er hituð á pönnunni og kjúklingurinn steiktur báðum megin þar til hann hefur fengið góða steikingarhúð og er hér um bil steiktur í gegn. Þá eru kjúklingabringurnar veiddar af pönnunni og settar til hliðar.

Því næst er 1 msk. af olíu bætt á pönnuna og tómatar og hvítlaukur látið malla í ca. 5 mínútur ásamt balsamediki. Nú er basiliku bætt á pönnuna auk þess sem kjúklingabringurnar eru settar aftur á pönnuna.

Mozzarellasneiðunum er raðað ofan á kjúklingabringurnar. Lok er sett á pönnuna og öllu leyft að malla í nokkrar mínútur þar til kjúklingurinn er fulleldaður og osturinn hefur bráðnað. Saltað og piprað eftir þörfum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert