Rakel dreymir um kóreskan matreiðslumann

Rakel laumast í fiskibollur þegar hún er ein heima.
Rakel laumast í fiskibollur þegar hún er ein heima.

Rakel Garðarsdóttir er landanum löngu kunn fyrir störf sín í þágu baráttunnar gegn matarsóun hér á landi. Stofnaði hún samtökin Vakandi sem berjast fyrir vitundarvakningu um matarsóun hér á landi og þar sem matarsóun á sér að mestu stað inni í eldhúsum landsmanna lék okkur forvitni á að fræðast nánar um eldhúshegðun Rakelar sem þekkt er fyrir að vera með afbrigðum skemmtileg. Hún segist elska góðan mat og að hversdagsmatur sé í meira uppáhaldi en fínn matur. Hins vegar sé það ekki hennar sterka hlið að elda.

Aðspurð segir hún að stærstu mistökin í innkaupum hjá sér eigi sér stað þegar hún kaupi of mikið inn sem valdi sóun. Hún sé enginn sérstakur kokkur og finnist ekkert sérstaklega skemmtileg að elda en í neyð séu það helst súpur enda ráði hún best við það. Hún segist jafnframt vera afspyrnulélegur bakari enda ekki á allra færi að galdra fram girnilegar kökur.

Uppáhaldsmaturinn segir hún að sé kóreskur matur en hún hafi enn ekki fundið veitingastað hér á landi með ekta kóreskum mat en þegar hún sé ein laumist hún til að fá sér Ora fiskibollur í bleikri sósu.

Ora fiskibollur eru bestar í bleikri sósu að sögn Rakelar.
Ora fiskibollur eru bestar í bleikri sósu að sögn Rakelar.

Uppáhaldsbækur í eldhúsinu séu heldur ekki eitthvað sem hún hafi komist að niðurstöðu með enda sé hún ekki komin það langt í matreiðslu en henni þyki gaman að lesa og skoða matreiðslubækur. Sérstaklega þær sem fara með lesandann á framandi slóðir og eru fræðandi með fallegum myndum.

Hún segir að sinn hugrakkasti gjörningur í eldhúsinu sé að nýta alla afganga og það sem til er í eldhúsinu. „Þar koma súpur og kássur mjög sterkar inn,“ segir hún og útskýrir þá kannski í leiðinni hrifningu sína af súpum.

Að lokum spyrjum við hana hvað hana myndi helst langa í í eldhúsið ef hún mætti ráða og það stendur ekki á svarinu: „kóreskan matreiðslumann“ svarar hún um hæl og við vonum auðvitað að sú ósk rætist þó að það verði að teljast fremur ólíklegt.

Svona lítur kóreskur matur út.
Svona lítur kóreskur matur út.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert