Hildur Eurovisionkeppandi hendir í Bang-Bang taco

„Kíkið endilega á síðurnar mínar til að fá paleo-innblástur. Ég …
„Kíkið endilega á síðurnar mínar til að fá paleo-innblástur. Ég er enginn trúboði; að segja að þetta sé besta mataræðið, því allir líkamar eru mismunandi, en þetta er það sem hefur virkað best á mig og lætur mér líða best.“ Mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hildur Kristín Stefánsdóttir er 29 ára Reykjavíkurmær sem aðhyllist steinaldarfæði og tekur þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins á morgun. Hún opnaði nýlega skemmtilegt matarblogg þar sem hún deilir hollum uppskriftum og almennri gleði. 

„Ég er búin að vera að vinna við mitt sólóverkefni í tónlistinni undir nafninu Hildur síðasta árið og á núna lag sem keppir í Söngvakeppni Sjónvarpsins sem heitir – „Bammbaramm,“ segir Hildur sem er m jög orkumikil og stundar bæði sund og æfingar í Mjölni af krafti og leggur mikið upp úr hollu mataræði.

Hildur ákvað að taka upp paleo-lífsstíll á síðasta ári og hefur haldið sig við hann með góðum árangri. Paleo gæti kallast steinaldarfæði á íslensku og er vísun í það sem forfeður okkar á „Paleolithic“-tímabilinu borðuðu. „Auðvitað veit enginn nákvæmlega hvað þeir borðuðu en þetta er svona samlíking til einföldunar en í rauninni er átt við að enginn matur sé unninn eða framleiddur heldur borðum við það sem náttúran bjó til handa okkur. Þetta er því sem hreinust fæða, engar unnar vörur notaðar og flestum kornvörum, mjólkurvörum, sykri og óhollum olíum sleppt.“

Áhugasamir geta kynnt sér uppskriftir Hildar á matarblogginu hennar hipaleo.com …
Áhugasamir geta kynnt sér uppskriftir Hildar á matarblogginu hennar hipaleo.com eða instagraminu hennar www.instagram.com/hi.paleo mbl.is/Eggert Jóhannesson

Söngkonan knáa ákvað í ágúst á síðasta ári að prófa Whole 30 áskorunina sem er að hennar sögn eins konar ýkt útgáfa af paleo-mataræði. „Það breytti því gjörsamlega hvernig ég hugsa um mat og ég lærði að finna mjög vel hvaða áhrif matur hefur á mig. Að þeirri áskorun lokinni ákvað ég að halda áfram að vera paleo að mestu leyti af því að ég fann að mér hafði aldrei áður liðið svona vel af mat og ég var farin að ná að elda ansi góðan paleo-mat sem gaf venjulegum mat ekkert eftir.“

Hitt er bara of leiðinlegt

Það kom Hildi á óvart hversu viðráðanlegt er að fylgja mataræðinu. „Þegar maður byrjar á þessu finnst manni þetta kannski frekar óhugsandi og óyfirstíganlegt. Þess vegna er sniðugt að fara á Whole 30 til þess að neyðast til að halda þessu áfram, því eftir svona hálfan mánuð fer þetta að vera skyndilega miklu léttara og um leið og maður er búinn að átta sig á sirka hvað maður getur borðað og hverju manni líður vel af er þetta ekki mikill vandi. Aðalvinnan er bara að skipuleggja sig smá, kaupa rétt inn og gæta fjölbreytni svona á meðan maður er að læra á þetta svo maður fái ekki leiða. Hins vegar er þetta flókið ef maður fer í veislur, matarboð eða út að borða svo að ég hef haldið mig við regluna að ég eldi allt paleo-heima, og reyni að grípa paleo-vænan skyndibita ef ég þarf slíkt en ef ég er að fara að gera mér dagamun – þá leyfi ég mér það sem ég vil. Hitt er bara of leiðinlegt og gerir að verkum að fæstir endast.“

Steikhúsin koma best út

Spurð um uppáhaldsveitingahús segir Hildur Mat og drykk vera í miklu uppáhaldi. „Hann er reyndar ekki mjög paleo-vænn, en frábær upplifun. Annars er merkilega auðvelt að velja paleo-vænt ef maður fer á steikhús.“ Talið berst að misheppnuðum mat en Hildur viðurkennir að hún eigi sín misheppnuðu eldhúsafrek eins og flestir aðrir. „Mesta eldhús „feilið“?

„Þegar ég reyndi að elda lifur vitandi það að mér hefur alltaf fundist hún ógeð, en mér fannst hún bara hljóma svo holl og ódýr. Leitaði heillengi að einhverri vænlegri uppskrift sem lofaði góðu, diskurinn leit mjög vel út en svo...bragðaðist þetta bara 100% eins og lifur og eftir að hafa kúgast smá yfir þessu endaði þetta í ruslinu.“

Hið fullkomna Eurovision-nasl

Hvert er hið fullkomna Eurovision-nasl að þínu mati? „Rósmarínristaðar möndlur, beikonvafðar döðlur, eplabitar með cashews-mjöri og kókos, hráskinka og melóna, bláber og vínber.“ Við gátum ekki sleppt Hildi lausri án þess að biðja hana að deila uppáhalds uppskriftinni sinni.

Girnilegt risarækju-taco með Bang-Bang sósu.
Girnilegt risarækju-taco með Bang-Bang sósu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bang-Bang risarækju tacos

Bang Bang-sósa
Paleo mayo, 1/3 bolli
Sambal Oelek chilimauk, 2 msk.
hvítlaukur, 1 geiri
*Ef viljið sterkt* Bætið við 2 msk. af Franks Red Hot sósu eða heimagerðri Sriracha

Taco-vefjurnar:
egg, 2
vatn, 2/3 bolli
Tapioca-hveiti, 1 bolli
kókoshveiti, 1/4 bolli
salt, 1/2 tsk.

Fylling
risarækjur, 500 g
Tapioca-hveiti, 2 msk.
hvítkál, 1 bolli,
rifið rauðkál, 1/2 bolli,
rifið kóríander, 1/2 bolli,
saxað vorlaukur, 2, saxaðir
ólífuolía, 2 msk.
hvítvínsedik, 1 msk.
klípa af salti
kókosolía til steikingar


Sósan:
Blandið saman öllum innihaldsefnum, setjið í krukku og geymið í ísskáp á meðan þið eldið.

Grænmetisfylling:
Blandið saman hvítkáli, rauðkáli, kóríander, vorlauk, olíu, hvítvínsediki og salti.

Tacos:
Blandið öllum innihaldsefnum í skál og hærið vel. Hitið pönnu vel og setjið kókosolíu á. Hellið deigi svo það verði eins og tacos í stærð (ætti að gera 6 tacos), steikið í 1-2 mín. á hvorri hlið eða þar til þær verða ljósbrúnar.

Rækjur:
Hellið Tapioca-hveiti og kókoshveiti í skál og blandið.

Dýfið rækjum vel í þannig að þær séu þaktar. Hitið kókosolíu á pönnu og steikið rækjurnar stuttlega á vel heitri pönnu, sirka 2 mín. á hvorri hlið eða þar til þær eru gullnar og nægilega eldaðar.

Hrærið svo um helmingnum af Bang Bang-sósunni saman við rækjurnar. Berið fram með því að setja grænmetisfyllingu neðst í tacosin, því næst rækjurnar og endið með auka Bang Bang-sósu og fersku kóríander ofan á. Svo má setja extra skammt af Frank’s Red Hot/Sriracha fyrir fólk sem vill ennþá meiri bang!
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert