Einn stærsti dagur ársins

Guðbjörg Glóð Logadóttir selur mörg þúsund fiskibollur í dag.
Guðbjörg Glóð Logadóttir selur mörg þúsund fiskibollur í dag. Sverrir Vilhelmsson

Það eru fleiri en bakarar sem vakna eldsnemma til að baka bollur fyrir bolludaginn. Margir fisksalar hafa hnoðað gómsætar fiskibollur í alla nótt en gjarnan er fullt út úr dyrum hjá fisksölum landsins í dag. Í ár buðu Fylgifiskar viðskiptavinum sínum að panta bollur á vefnum til að tryggja sér kvöldverð við hæfi á sjálfan bolludaginn. „Þetta er fyrsta skipti sem við höfum boðið upp á pantanir á vefnum og þetta sló algerlega í gegn. Við trúum því varla hve mikið hefur komið inn af pöntunum og það er gaman að sjá að fólk er til í að prufa alls konar óhefðbundnar tegundir,“ segir Guðbjörg Glóð, eigandi Fylgifiska.

Fylgifiskar eru nokkuð flippaðir í bollugerð sinni og bjóða yfirleitt upp á nýja gerð af bollum á hverju ári. Í ár verða á boðstólnum austurlenskar fiskibollur með teriyaki & sesam-sósu, arabískar með tómat-chutney, laxa með mangó- og chillísalsa og krabba- með paprikusalsa auk klassískra fiskbollna. Spurð um hvað búið sé að hnoða margar bollur svarar Guðbjörg „þetta eru mörg þúsund bollur og allt handsteikt. Þetta er einn af stærstu dögunum okkar og alltaf mjög mikið að gera.“ Enn er þó eitthvað til af bollum en Guðbjörg segir að það muni án efa allt seljast upp fyrr en seinna líkt og síðustu ár. „Við lokum ekki fyrr en hálfsjö og eigum til ferskan fisk og fiskisúpur svo það verður til nóg af mat.“ Fyrir þá sem ekki komast í bollur hjá fiskbúðum landsins er því vert að hafa í huga að panta á netinu að ári liðnu.

Fiskibollur með salsa að hætti Fylgifiska.
Fiskibollur með salsa að hætti Fylgifiska.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert