Bestu leynitrixin til að ná smjörblettum

Smjör er vinsælt í matargerð.
Smjör er vinsælt í matargerð. Þorkell Þorkelsson

Það tóku ansi margir gleði sína á ný eftir að smjör var sýknað af því að vera skelfileg óhollusta sem ekki mætti neyta án þess að lenda í bráðri lífshættu. Smjör er nefnilega svo ansi gott á bragðið og svo er það bráðhollt.

En verra er að fá smjörbletti á sig og það getur reynst þrautin þyngri að ná öllum vönduðu fitusýrunum úr efninu. Þetta eru þó ekki endalok alls því við lumum á nokkrum leynitrixum til að ná smjörinu burt.

Smjör í fötum. Náðu í tvær hvítar tauservíettur (má vera hvað sem er en passaðu að það smitist ekki litur). Taktu aðra servíettuna og dýfðu horninu á henni í vatn og settu síðan vel af salti á hornið. Taktu hina servíettuna og settu bak við blettinn og þrýstu síðan salta og blauta servíettuhorninu á blettinn. Saltið brýtur niður olíuna og bletturinn á að hverfa. Athugið að ekki þarf að nudda blettinn bara að leggja saltvatnið á og halda þér. Viðkvæm efni skal alltaf senda í hreinsun.

Okkur á Matarvefnum hefur einnig gengið vel að nota gamla góða Hreinolið og bursta blettinn vel með uppþvottaleginum áður en flíkin er sett í þvott. Athugið þó að viðkvæm efni þola þetta alls ekki.

Smjör í tauhúsgögnum (sófum og þess háttar). Hér þarftu að eiga brúnan bréfpoka sem þú leggur ofan á blettinn og heldur niðri með einhverju þungu (eins og bók). Látið bíða í einhverja stund þar til þú getur sinnt blettinum. Þá skaltu hita straujárn og strauja pappírinn yfir blettinum. Pappírinn á þá að sjúga í sig fituna og bletturinn ætti að hverfa.

Smjör í óvörðum við. Ef þú ert lítið í að olíubera viðinn heima hjá þér getur smjörblettur komið sér afskaplega illa. Notaðu brúnan pappír eins og hér að ofan eða þykkan ómeðhöndlaðan pappír og hitaðu fituna úr með straujárninu. Passaðu að hafa járnið samt ekki of heitt.

Smjör í fínu mottunni. Hér er leynitrixið að nota kartöflumjöl. Settu slatta á blettinn og þrýstu niður. Alls ekki nudda. Láttu liggja á blettinum í góða stund og nuddaðu varlega með volgu vatni með örlitlu af uppþvottalegi saman við. Passaðu samt að nota ekki litaðan uppþvottalög á hvíta mottu. Hreinsaðu með tusku og bursta (en farðu varlega) og þegar þú ert búin að ná öllu kartöflumjölinu burt skaltu leggja hvítt handklæði ofan á og pressaðu vel til að handklæðið sjúgi í sig allan vökva.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert