Kvöldverðurinn skiptir gríðarlegu máli

Rannsóknir sýna svo að ekki verður um villst að samvera …
Rannsóknir sýna svo að ekki verður um villst að samvera fjölskyldunnar við matarborðið skiptir máli. Skjáskot

Samvera skiptir fjölskyldur miklu máli og fáar samverustundir eru jafnmikilvægar og kvöldverðurinn. Þar kemur fjölskyldan saman í lok dags, fer yfir málin og tengist. Íþróttaæfingar og félagslíf taka mikinn tíma og raska oft hefðbundnum kvöldverðartímum en rannsóknir sýna að kvöldverðurinn skiptir máli og það eru nokkrar góðar ástæður fyrir því.

Þroski. Samræður hjálpa börnum okkar að þroskast og öðlast færni í samskiptum. Samræður við vini eru af öðrum toga heldur en við fullorðna eða fjölskylduna og því skiptir máli að talað sé við börnin til að þroska þau og þar er kvöldverðarborðið fullkominn staður.

Betri geðheilsa. Í rannsókn sem birtist í læknatímaritinu Pediatrics kom fram að börn sem borðuðu máltíð með fjölskyldunni reglulega væru í minni áhættuhóp fyrir þunglyndi og eiturlyfjaneyslu.

Traustari fjölskyldubönd. Þegar fjölskyldan eyðir reglulega tíma saman við matarborðið á sér stað tenging sem styrkir fjölskylduböndin. Máltíðin þarf ekki endilega að vera fullkomin eða fara friðsamlega fram en samveran skiptir máli. Það er vísindalega sannað.

Betri einkunnir. Það er líka sannað að börn sem borða reglulega með fjölskyldunni sinni fá betri einkunnir. Ekki er gefin nákvæm skýring á hvað nákvæmlega veldur en við ætlum að giska á að allt ofangreint hafi þar áhrif.

Betri heilsa. Rannsóknir sýna líka að börn sem borða reglulegar kvöldmáltíðir með fjölskyldunni eru með lægri BMI-stuðul en önnur börn og eru leiddar líkur að því að heimaelduð fjölskyldumáltíð sé alla jafna hollari en skyndibiti. Við gerum þó athugasemd við þetta og bendum á að hægt er að borða hollar máltíðir sem keyptar eru á veitingastöðum og eiga þannig fullkomna fjölskyldustund.

Aukinn sparnaður. Það er ódýrara að elda heima og enn ódýrara að skipuleggja matseðilinn fram í tímann, fara sjaldan en skipulega út í búð og vera hagsýnn.

Svo má ekki gleyma því mikilvægasta en það er samvera fjölskyldunnar. Í hraðanum sem við búum við í dag í nútímasamfélagi er það alltaf dýrmætt og þakklátt að fá tíma með sínum nánustu. Reynum að fjölga þeim stundum og pössum upp á kvöldmatinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert