Yfir 2 þúsund manns mæla með þessari súkkulaðiköku

Súkkulaðikökur eru dásamlegar og geta breytt erfiðum degi í vel viðráðanlegan, kætt kaldhranalegar frænkur og hresst fýlda unglinga við. Hér er komin ein af mínum uppáhalds uppskriftum en hún er ofur einföld, þarf ekki hrærivél og tekur stutta stund þar sem öll innihaldsefnin fara í eina skál. Uppskriftin er upphaflega frá vefsíðunni Allrecipes.com en hún hefur skorað hvað hæst á síðunni í flokknum súkkulaðitertur en mörg hundruð manns hafa birt myndir og yfir 2. þúsund manns hafa skrifað ummæli við uppskriftina og dásamað hana.

Ofan á tertuna setur svo hver og einn sitt uppáhalds krem. Ég sett hnausþykkt súkkulaðikrem með suðusúkkulaði og kaffikeim yfir tertuna en það má vel gera hvaða krem sem er. Afraksturinn var mjög góðir enda hvarf gúmmelaðið á örfáum mínútum ofan í harðduglega blaðamenn Morgunblaðsins.

Djúsí súkkulaðikaka 

2 bollar hrásykur eða venjulegur
1 og ¾ bolli hveiti
¾  bolli ósætt kakó
1 ½ tsk lyftiduft
1 ½ tsk matarsódi
1 tsk salt
2 egg
1 bolli mjólk
½ bolli olía (ég notaði kókosolíu)
2 tsk vaniludropar
1 bolli soðið vatn

Forhitið ofninn í 175 gráður.

Smyrjið kökumótið með smjöri eða olíu. Annað hvort má gera eina væna tertu eða setja deigið í tvö minni mót og hafa hana tveggjalaga.

Í stóra skál skal blandað saman sykri, hveiti, kakó, matarsóda, lyftidufti og salti. Hrærið þurrefnunum saman.

Næst fara eggin, mjólk, olían og vanillan saman við. Hrærið þessu vel saman. Að lokum fer vatnið saman við. Deigið verður nokkuð þunnt.

Hellið deiginu í formið eða formin og bakið 30-35 mínútur eftir þykkt tertunnar. Gott er að nota prjón eða tannstöngul til að stinga í tertuna. Hún er tilbúin þegar prjóninn kemur deiglaus út.

Kælið kökuna í 10 mínútur áður en kakan er fjarlægð úr mótinu. Látið tertuna kólna alveg áður en kremið er sett á en það má nota nánast hvaða kremuppskrift sem er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert