Þrífðu eldhúsið á 30 mínútum – skotheld aðferð

Falleg eldhús setja mikinn svip á heimilið og ekki gengur …
Falleg eldhús setja mikinn svip á heimilið og ekki gengur að hafa allt í drasli. Pinterest

Margir vita fátt leiðinlegra en að þrífa eldhúsið og veigra sér jafnvel við að elda mat af þeirri einföldu ástæðu að þeir nenna ekki að taka til eftir sig. En allt snýst þetta um aðferðarfræði og viðhorf og við settum saman skothelda uppskrift (af því að við elskum uppskriftir) af hreinu eldhúsi á 30 mínútum.

Það fyrsta sem þú þarft að gera er að taka fram tímastillinn (getur notað símann þinn) og svo er gott að teygja aðeins.

Gakktu frá draslinu (3 mínútur)

Taktu þessar þrjár mínútur í að ganga frá draslinu sem er út um öll borð hjá þér. Til þess að þrífa eldhúsið þarftu að sjá það. Þrjár mínútur – 180 sekúndur er tíminn sem þú færð.

Gakktu frá matnum (2 mínútur)

Er morgunverðurinn enn þá á borðinu? Brauðið upp á eldhúsbekk? Gakktu frá öllum matvælum inn í kæli, frysti, skáp eða búr. Ætti að vera auðvelt verk.

Hrein hreinlætistæki (1 mínúta)

Náðu í hreina tusku og viskustykki. Það er gott að byrja með hreint hreinlætisdót. Auðveldar allt.

Settu í uppþvottavélina – en ekki setja hana í gang (3 mínútur)

Settu allt skítugt leirtau í uppþvottavélina og raðaðu sæmilega skynsamlega ef draslið er mikið. Ekki setja samt vélina í gang fyrr en að þrifunum loknum því það kemur alltaf eitthvað aukadót í ljós.

Ef þú átt ekki uppþvottavél skaltu raða öllu óhreina leirtauinu við hlið vasksins. Fylla hann af heitu sápuvatni og svo vaskarðu upp. Ekki slá því á frest – láttu vaða og þú munt þakka okkur að verkinu loknu.

Hentu útrunnum vörum úr ísskápnum (5 mínútur)

Renndu í gegnum ísskápinn og hentu því sem farið er að mygla. Raðaðu sæmilega skynsamlega í hann og farðu með blauta tusku á hillurnar. Þú hefur fimm mínútur. Það ætti að duga.

Þrífðu borðplöturnar (3 mínútur)

Nú á allt draslið að vera á bak og burt, allar matvörur komnar á sína réttu staði og búið að vaska upp. Þá skrúbbarðu borðplöturnar –hvort sem þær eru úr plasti, flísum, við eða marmara. Notaðu þá aðferð sem þarf en gerðu það sæmilega vel.

Þrífðu eldavélina (3 mínútur)

Ekki ofanda. Þú átt ekki að taka hana í gegn heldur bara renna yfir hana og ná burt matarleifunum og mylsnunni. Dálítill kattaþvottur en dugar að sinni.

Þurrkaðu að heimilistækjunum (5 mínútur)

Þurrkaðu nú af öllu því sem er á eldhúsbekkjunum eins og brauðristin og kaffivélin – eða hvað sem þú geymir upp á bekkjunum. Þú hefur fimm mínútur.

Sópaðu gólfin (3 mínútur)

Nú viljum við minna ykkur á fréttina okkar um hvernig á að þrífa eldhúsgólf.

Þar má sjá tæki sem gera ykkur kleift að vinna verkið á innan við 60 sekúndum leyfum við okkur að fullyrða.

Farðu út með ruslið (2 mínútur)

Tæmdu ruslið og settu nýja poka í.

Til hamingju – innan við hálftími liðinn og þú ert núna með tandurhreint eldhús. Takk fyrir og ekkert að þakka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert