Þvagprufuglös undir brjóstamjólk og barnamat

Jóhanna er eldhress 4 barna móðir og einkaþjálfari.
Jóhanna er eldhress 4 barna móðir og einkaþjálfari.

Jóhanna Björg Árnadóttir hefur vakið mikla athygli fyrir úrræðasnilld sína í hinum ýmsu efnum. Við birtum húsráð henni fyrir skemmstu um hvernig má þvo gærur án þess að eyðileggja þær. Nú hefur Jóhanna fundið ódýra leið til að geyma barnamat og brjóstamjólk.

„Þvagprufuglös eru snilld til þess að geyma brjóstamjólk og heimagert barnamauk. Af hverju ekki að nota þvagprufuglös? Þau eru steríl og því fara engin eiturefni í innihaldið og kosta 68 kr. stk. Þar að auki þola þau frost, uppþvottavél og endurtekna notkun,“ segir Jóhanna sem er 4 barna móðir og hefur því fyllt ansi mörg mál af barnamat og brjóstamjólk í gegnum tíðina en hún er i fæðingarorlofi með það yngsta sem stendur.
 
Hvernig datt þér þetta í hug með þvagprufuglös ?
„Ég mjólkaði alveg gasalega mikið með elsta barnið en mér féllust hendur yfir verðinu á „mjólkurpokunum“ sem eru eiturefnalausir og frostþolnir. Ég tuðaði það við einhvern vel valinn viðmælanda að það væri alveg eins fínt að nota fjárans þvagprufuglös ! Hmm... nei, það væri ekki svo galið!“

Er ekkert horft skringilega á þig þegar þú kaupir þau í stórum stíl eða slengir þeim á borðið í veislum?
„Í veislum innan um mitt fólk kemur það engum á óvart. En jú, ég hef fengið forvitin augu í apótekum – en það er fljótútskýrt: eiturefnalaus og þola frost. Undir barnamat. Fólki hefur hingað til bara þótt það sniðugt.“

Hefur þú alltaf verið svona útsjónarsöm?
„Já, það held ég. Sennilega tengist það því að kunna ekki að hugsa innan rammans.“

Hvert er besta húsráð sem þú hefur fengið?
„Að móta kjötfarsbollur í lófunum eins og Guðrún vinkona mín kenndi mér. Og þá auðvitað fór ég að reyna það við allt sem mér datt í hug en ég mæli ekki alveg með því ef gera á lakkrístoppa,“ segir Jóhanna hress en hún lofar að deila með okkur fleiri húsráðum áður en langt um líður.


Jóhanna kallar sig Jófó Drekamamma á samfélagsmiðlum þar sem hún …
Jóhanna kallar sig Jófó Drekamamma á samfélagsmiðlum þar sem hún deilir gjarnan frumlegum húsráðum sínum. Jóhanna Björg Árnadóttir/mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert