Sérverslun með súkkulaði opnar í miðbænum

Stefán er mjög frumlegur í súkkulaðigerð sinni og hefur meðal …
Stefán er mjög frumlegur í súkkulaðigerð sinni og hefur meðal annars prufað að framleiða súkkulaði með tannkremsbragði. Mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Á horni Garðastrætis og Vesturgötu er að myndast ansi skemmtileg stemmning en vinsælir fatahönnuðir eru að opna þar verslun, nýr hamborgarastaður er í smíðum og sérverslun með handgert súkkulaði opnar á næstu dögum. Matarvefurinn rak inn nefið í súkkulaðiverslunina sem ber nafnið Stefán B eftir eiganda verslunarinnar. Þar er að finna ansi frumlegt úrval af handgerðu súkkulaði sem gaman er að skoða.

„Ég heiti sem sagt Stefán Barði og er 30 ára og úr Reykjavík. Mig langaði á sínum tíma til að breyta til í lífinu og fara út í eigin rekstur.  Ég ákvað því að hella mér út í framleiðslu súkkulaðis aðallega þar sem það er náttúrulega svo gott og eitthvað sem allir borða og allur heimurinn í kringum súkkulaði er mjög heillandi,“ segir Stefán sem er sjálfmenntaður í súkkulaðigerð. Í versluninni verður að finna súkkulaði, konfekt og óhefðbundnar vörur á borð við kakósúpuduft í flöskum og súkkulaðibúðingsgrunn.

Álfasúkkulaðið er litríkt og hresst.
Álfasúkkulaðið er litríkt og hresst. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Ýmis súkkulaðivarningur verður fáanlegur í versluninni svo sem kökuskraut.
Ýmis súkkulaðivarningur verður fáanlegur í versluninni svo sem kökuskraut. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Ég er að framleiða eitthvað í kringum 150 tegundir af súkkulaði og súkkulaðitengdum vörum. Sjálfur er ég hrifnastur af 60% lakkríssúkkulaðinu, annars finnst mér allt 60% súkkulaði gott og er að nota það mest í mína framleiðslu. Það er hvorki of biturt né of sætt,“ segir Stefán en meðal áhugaverðra súkkulaðiplatna sem er að finna í versluninni er álfasúkkulaði og skærblátt berjasúkkulaði. Það er þó alls ekki það undarlegasta sem Stefán hefur kokkað upp í súkkulaðistarfi sínu. „Ég hef til dæmis gert súkkulaði með 24 karata gulli, síðan hef ég prófað að gera mangósúkkulaði, cola-súkkulaði, rauðvínssúkkulaði og síðan súkkulaði með tannkremsbragði sem fór reyndar aldrei í sölu,“ segir Stefán hress og bætir við að það séu nokkrir flippaðir konfektmolar á teikniborðinu. Stefán stefnir á að opna verslunina á næstu dögum en áhugasamir geta fylgst með hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert