Opnar í fyrsta sinn fyrir kvöldverð

„Við viljum skapa notalega kvöldstemmningu í góðra vina hópi þar …
„Við viljum skapa notalega kvöldstemmningu í góðra vina hópi þar sem enginn er að flýta sér,“ segir Þórir Bergsson. mbl.is/ Freyja Gylfa

Þórir Bergsson, eigandi Bergsson Mathús og Bergsson RE, hefur í nægu að snúast þessa dagana en Bergsson Mathús er nú í fyrsta sinn opið á kvöldin frá því að staðurinn opnaði í júlí 2012.   

„Hugmyndin var í byrjun að setja fókus á morgunverðar- og hádegisverðarstað. Þar að auki vorum við alltaf með 2 fyrir 1 á mat í lok dags svo fólk gæti kippt með sér mat heim,“ segir Þórir Bergsson, eigandi Bergsson-staðanna. „2 fyrir 1 tilboðið varð mjög vinsælt svo við fórum að gera meiri mat fyrir það, en hugmyndin var í upphafi að klára matinn með 2 fyrir 1 svo við þyrftum ekki að henda neinu. Þannig að núna verður hægt að fá 2 fyrir 1 milli 15 og 17 og þá er svigrúm til að opna kvöldstað kl. 18 með öðruvísi mat,“ segir Þórir en hugmyndafræðin á bak við kvöldopnuna er fjölskylduvæn og notaleg stemmning þar sem fólk deilir matnum líkt og tíðkast á flestum heimilum. Það er að segja maturinn er borinn á borð og allir fá sér sjálfir á disk. Þórir segist vera sérstakur vinur grænmetis og því sé alltaf nóg í boði fyrir þá sem ekki borða kjötmeti.

Athygli hefur vakið að staðurinn er með nokkuð sérstakt úrval af víni en þar er meðal annars að finna lífrænt ósíað freyðivín sem kunnugir segja eitt það besta sem til er. „Við erum með áherslu á góð vín sem eru fengin til dæmis frá fyrirtækinu Berjamó og hafa sterkan karakter. Það skiptir okkur líka máli að rekjanleiki á matnum sé góður. Við erum heldur ekki með sérstakan barnamatseðil heldur alvörumat þar sem brögðin fá að njóta sín og allir geta deilt.“  

Aðspurður hvaða réttur sé bestur á seðlinum segir Þórir að …
Aðspurður hvaða réttur sé bestur á seðlinum segir Þórir að hann geti nú ekki gert upp á milli en það sé gaman að prufa þorskinn en hann er borinn fram hálfur og er mjög bragðgóður. mbl.is/ Freyja Gylfa

Hvernig gengur að manna vaktirnar nú þegar ný veitingahús virðast opna nær vikulega?
„Það er orðið mjög sérstakt ástand á veitingahúsamarkaðnum en ég hef verið heppinn og er með mjög blandaðan alþjóðlegan hóp af frábæru starfsfólki,“ segir Þórir að lokum og hvetur fólk til að reka inn nefið og prófa nýja kvöldseðilinn. 

Þórir segist vera sérstakur vinur grænmetis og því sé alltaf …
Þórir segist vera sérstakur vinur grænmetis og því sé alltaf nóg í boði fyrir þá sem ekki borða kjötmeti. mbl.is/ Freyja Gylfa
Áherslan á kvöldseðlinum er á mat til að deila fyrir …
Áherslan á kvöldseðlinum er á mat til að deila fyrir 2 eða fleiri. Einnig er hægt að fá smárétti og hefðbundna aðalrétti. mbl.is/ Freyja Gylfa
Gestir velja sér meðlæti með aðalréttunum.
Gestir velja sér meðlæti með aðalréttunum. mbl.is/ Freyja Gylfa
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert