Íslenskt lakkrísostasnakk

Guðmund­ur Páll Lín­dal og Jósep Birg­ir Þór­halls­son eru bestu vin­ir …
Guðmund­ur Páll Lín­dal og Jósep Birg­ir Þór­halls­son eru bestu vin­ir frá því úr mennta­skóla. mbl.is/tm

Vin­irn­ir Guðmund­ur Páll Lín­dal og Jósep Birg­ir Þór­halls­son kynntu á síðasta ári ostasnakk undir merkinu Lava Cheese. Á matarmarkaðnum í Hörpu næstkomandi helgi kynna þeir nýja viðbót, ostasnakk með lakkrísrót.

„Salan hefur gengið virkilega vel! Við bjuggumst alls ekki við að eftirspurnin yrði svona mikil og gerum allt sem við getum til að uppfylla pantanir. Við jukum framleiðslugetuna talsvert nýlega og ættum því að geta framleitt ofan í flesta ef ekki alla sem hafa beðið um vöruna í búðirnar sínar,“ segja félagarnir. Guðmundur er menntaður lögfræðingur en Jósep verkfræðingur en þeir hafa lagt fyrri störf sín til hliðar til að geta sinnt Lava Cheese. „Við erum í snakkinu alla daga og stefnum á að geta jafnvel borgað okkur laun fyrir á næstu vikum.“ 

Þeir útiloka ekki að herja á erlenda markaði í framhaldinu en fara þó að öllu með gát. „Fyrr eða síðar verður stefnan sett þangað. Við tökum þó bara eitt skref í einu og viljum ná tökum á innanlandsmarkaði fyrst enda er margt sem við getum lært hérna áður en við förum á fleiri staði.“

Félagarnir kynna nýja bragðtegund um helgina.
Félagarnir kynna nýja bragðtegund um helgina. Kristinn Magnússon

Lakkrísostasnakk kynnt um helgina 

„Við höfum gert margar tilraunir með bragðtegundir og stefnan hjá okkur er að leita að sem frumlegustum blöndum. Upp úr því kom pælingin um bakaðan lakkrísost sem okkur fannst bara svo skrýtin að við urðum að prófa það. Eftir að hafa prófað okkur áfram með nokkra mismunandi osta og lakkrísrót enduðum við með uppskrift sem hitti í mark, sérstaklega hjá lakkrísunnendum,“ segir Guðmundur en fyrir eru þeir með ostasnakk úr cheddarosti með chillí kryddi.

„Núna um helgina verðum við með bás á Matarmarkaði Búrsins í Hörpunni þar sem fólk getur smakkað vörurnar okkar og keypt á sérstöku kynningarverði. Á næstu vikum munum við svo birtast í talsvert fleiri búðum og þá mun lakkrísosturinn vera þar á meðal. Við erum svo með þriðju tegundina í bígerð sem við erum rosalega spenntir fyrir en með henni munum við reyna að höfða meira til sætindapúkanna þarna úti.“

Fyrir áhugasama fæst góðgætið í Duty Free Store, Ostabúðinni Skólavörðustíg, Upplifun Hörpunni, Búrinu, Sælkerabúðinni Bitruhálsi, Borðinu, Mosfellsbakaríi og Iðu Zimsen. „Við hvetjum svo fólk til að kíkja á okkur í Hörpunni um helgina og smakka Lava Cheese,“ segja þeir félagar alsælir í ostaþoku.

Guðmundur og Jósep segja að lang­besti ost­ur­inn sé ost­ur­inn sem …
Guðmundur og Jósep segja að lang­besti ost­ur­inn sé ost­ur­inn sem bráðnar und­an grilluðum sam­lok­um og storkn­ar rétt fyr­ir utan. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert