Spínatbaka leikskólabarnanna

Bakan er hnausþykk og matarmikill. Ég stráði dálítið af chillíflögum …
Bakan er hnausþykk og matarmikill. Ég stráði dálítið af chillíflögum yfir hana. mbl.is/Rebekka Rut Marinósdóttir

Þessa spínatböku gerir móðir mín oft. Hún er einstaklega góð, holl og matarmikil. Ég er mikið fyrir sterkan mat og set því sjálf gjarnan chillíflögur út í bökuna en það má í raun bæta hvaða kryddi sem er við eða jafnvel smátt saxaðri papriku eða ólífum. Ég set líka gjarnan ferska basilíku eða kóríander í stað þurrkaðrar og set mun meira eða 1/2 saxað knippi.

Uppskriftin er upphaflega frá hinni skemmtilegu síðu Uppáhalds uppskriftir leikskólabarnanna en það er hún Berglind Mari Valdemarsdóttir sem stofnaði síðuna fyrir nokkrum árum sem lokaverkefni í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands. Vefsíðan miðlar uppskriftum að vinsælum réttum sem eldaðir eru í leikskólum landsins. Þessi tiltekna uppskrift er frá leikskólanum Drafnarborg.

Bakan er einstaklega góð með kaldri sósu og fersku salati. …
Bakan er einstaklega góð með kaldri sósu og fersku salati. Hún geymst líka vel og er fullkomin sem nesti. mbbl.is/Rebekka Rut M

Spínatbaka

Botninn

200 g smjör
180 g spelt
3 msk kalt vatn
½ tsk jurtasalt

Aðferð

Blandið saman smjöri, spelti, vatni og salti í hrærivél með hnoðara, hrærið öllu saman þar til deigið er jafnt, þétt og sprungulaust.
Gott er að geyma deigið í ísskáp i 1-2 klst.
Fletjið deigið út með rúllukefli og þrýstið deiginu í botninn á forminu og upp með hliðum.
(Hér potaði ég í deigið með gaffli og stakk því svo í ofn við 180 gráður í 10 mín.)

Grænmeti og annað hráefni í böku:

1 blaðlaukur, smátt saxaður
500 g spínat, rifið
5 egg
100 g rjómaostur
1 lítil dós kotasæla (200 g)
1 tsk jurtasalt
¼ tsk hvítur pipar
1 tsk basilikum 
2 dl matreiðslurjómi
1 msk chilisósa (sweet and sour)

Aðferð

Dreifið púrrulauki í formið og spínati þar ofan á.

Hrærið saman eggjum, rjómaosti, kotasælu og tilheyrandi kryddum i matvinnsluvél eða hrærivél og hellið hrærunni yfir spínatið.

Bakið bökuna við 170 gráður í 50-60 mín. 

Látið bökuna kólna dálítið svo hún haldist vel saman. Bakan er borin fram með salati og jógúrtsósu.

Athugasemd frá Berglindi:

Nú ertu kannski að hugsa: “Ha bíddu blandaði hún saman öllum hráefnunum, það átti ekki að gera þetta svoleiðis!” Mikið rétt - það á ekki að gera þetta svoleiðis. Ég er bara ein af þeim sem á það til að setja saman Ikea húsgögn og lesa síðan leiðbeiningarnar eftir á. Það sama gildir um uppskriftir, stundum. Það kom samt ágætlega út í þessu tilfelli að blanda öllu saman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert