Franski sendiherrann býður heim í dýrindis kássu

Matarvefurinn heimsótti franska sendiherran Philippe O'Quin í tilefni þess að franska matarhátíðin Goût de France er haldin hátíðleg víða um heim í dag. Sendiherrann bauð okkur heim í dýrindis kjötkássu (sjá uppskrift hér að neðan) og skemmtilegt spjall um franska matarmenningu. Sendiherrabústaðurinn er ákaflega líflegur og skemmtilegur heim að sækja enda fáir með appelsínugula bólstraða veggi sem gleðja auga strax og komið er inn.

Sendiherrann sagði okkur frá skemmtilegri hefð í Frakklandi en þar er leitast við að para vín og mat saman eftir því hvaðan uppskriftin kemur og leitast við að hafa vín úr sama héraði. Það er einnig vinsælt að nota sama vín og tilheyrir sósu réttarins eða er notuð í matreiðsluna til að fá fullkominn samhljóm.

Fyrir áhugasama er matarhátíðin Goût de France haldin hátíðleg með franskri matargerð í Reykjavík á eftirfarandi stöðum: Aalto Bistro, Gallery Restaurant á Hótel Holti, Kitchen & Wine, Le Bistro og á Torfunni-Humarhúsinu. 

Sendiherrann bauð upp á afskaplega góðan franskan heimilismat.
Sendiherrann bauð upp á afskaplega góðan franskan heimilismat. mbl.is/ Tobab Marinós

Frönsk heimiliskássa 

Þessi réttur er mjög auðveldur í gerð og ódýr. Það má vel nota síðri nautakjötsbitana í þennan rétt. Sendiherrann segir að rétturinn sé bestur daginn eftir og hann má vel hita upp í 2-3 daga eða frysta.

1 kg nautakjöt í teningum (nánast hvaða hluti sem er)
2 laukar, saxaðir 
200 g grísasíða í teningum 
6 gulrætur, í nokkuð þykkum sneiðum 
1 msk. hveiti (til að velta kjötinu upp úr)
1 lítil dós tómatpaste 
1 msk. timían 
1/2 msk. salvía
4 lárviðarlauf
1 nautakraftsteningur í 1/2 l af vatni svo soð myndast
Salt og pipar eftir smekk
2 hvítlauksgeirar, saxaðir
olía 

Vínpörun: Bourgogne

Veltið kjötteningunum upp úr hveiti.
Brúnið kjötteningana í olíu í steypujárnspotti.
Setjið kjötið til hliðar og brúnið laukinn og lárviðarlaufin.
Bætið svo kjötinu aftur saman við ásamt soðinu, tómatpaste-inu, gulrótunum, hvítlauk og kryddi.
Látið malla í klukkustund á miðlungs hita. 
Minnkið svo hitann, saltið og piprið og látið malla í aðrar 30 mínútur. 

Berið fram með kartöflum, pasta eða hrísgrjónum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert