Trolls-afmæliskaka sem bræðir hjartað

Kakan er glæsileg eins og sjá má.
Kakan er glæsileg eins og sjá má. Ljósmynd / Thelma Þorbergs

Thelma Þorbergsdóttir er meistarasnillingur í eldhúsinu og óhrædd við að takast á við nýjar áskoranir. Hún bloggar reglulega inni á Gott í matinn og þar var hún að birta afraksturinn úr nýjasta barnaafmælinu sem var átta ára afmælið hans Kristófers sem að hennar sögn var hæstánægður með afmælið.

Trolls er uppáhaldsbíómyndin hans og var hann því staðráðinn í að afmæliskakan þyrfti að vera tröllum gædd.

Kristófer afmælisdrengur ásamt Hildi Emilíu, systur sinni, sem verður sjö …
Kristófer afmælisdrengur ásamt Hildi Emilíu, systur sinni, sem verður sjö ára í sumar. Ljósmynd / Thelma Þorbergs

Við gefum Thelmu orðið en fleiri uppskriftir frá henni má nálgast inni á Gott í matinn.

„Í febrúar varð Kristófer 8 ára, ótrúlegt en satt, og er hann duglegur að segja frá því hvað hann sé orðinn gamall. Hann ætlaði að hafa Leynilíf dýranna afmæli en eftir að hafa horft hundrað sinnum á Trolls-myndina, sungið og dansað með henni skipti hann um skoðun. Litadýrðin í þessari mynd er æðisleg og boðskapurinn líka svo það var ekki leiðinlegt að skreyta kökuna í þeim litum. Ég ætla því að deila með ykkur hvernig ég gerði kökuna og hvað hægt er að föndra saman til að gera afmælið extra skemmtilegt.

Þegar ég geri afmæliskökur nota ég alltaf gömlu góðu skúffuköku-uppskriftina mína sem er búin að vera í fjölskyldunni frá því ég var lítil. Hún helst mjúk svo lengi og auðvelt að vinna með botnana þegar maður er að stafla kökum saman. Ég gerði tvöfalda uppskrift og notaði tvö 24 cm form og tvö minni. 

Síðan þurfti ég fjórfalda uppskrift að smjörkremi til þess að skreyta þessa köku. 

Ég notaði sprautustút 1M, það er hægt að nota hann á svo marga vegu. Eftir að ég festi kökuna saman með smjörkremi, svona grunnlagi, skipti ég restinni af kreminu í 4 hluta og litaði þá með bleikum, grænum, bláum og gulum matarlit. Mikilvægt er að nota gelmatarlit en þeir fást t.d. í Allt í köku í öllum litum. Þegar ég var búin að sprauta hliðarnar á kökunni blandaði ég kremunum saman í einn sprautupoka og skreytti rest. Þannig gerði ég einnig efri hluta kökunnar. Svo þar sem þetta er Trolls-kaka varð auðvitað að vera glimmer, ég var með silfurlitað glimmer sem ég blés á hliðar kökunnar. Svo skelltum við nokkrum hressum Trolls-köllum ofan á kökuna ásamt stjörnuljósi sem er algjör nauðsyn í afmælum á þessu heimili. Það er hægt að fá stjörnuljós í öllum númerum og bara venjuleg í nokkrum litum.“

Litirnir eru sérlega fallegir.
Litirnir eru sérlega fallegir. Ljósmynd / Thelma Þorbergs

Innihald

  • 4 egg
  • 420 g sykur
  • 320 g hveiti
  • 3 msk. dökkt kakó
  • frekar kúfaðar
  • 5 tsk. lyftiduft
  • 2 dl mjólk
  • 120 g brætt smjör

Aðferð

Hitið ofninn í 180°C og smyrjið ofnskúffu að innan. Þeytið egg og sykur saman þar til blandan verður ljós og létt, eða í u.þ.b. 5 mínútur. Blandið hveiti, kakói og lyftidufti saman í skál og hrærið. Bætið því saman við blönduna ásamt mjólkinni og brædda smjörinu og hrærið þar til allt hefur blandast vel saman. Skafið vel hliðarnar á skálinni inn á milli til þess að allt blandist vel. Hellið deiginu í ofnskúffuna og dreifið því jafnt með sleif. Bakið í 20 mínútur eða þar til tannstöngull kemur hreinn upp úr miðju kökunnar.

Kælið kökuna í 3-5 mínútur áður en þið setjið glassúrið ofan á.

Smjörkrem

  • 250 g smjör við stofuhita
  • 1 pk. flórsykur (500 g)
  • 4 tsk. vanilludropar 
  • 2-4 msk. mjólk

Hrærið smjörið í hrærivélinni þangað til það er orðið mjúkt og létt. Bætið smá og smá af flórsykrinum saman við og hrærið vel á milli.

Bætið því næst vanilludropunum saman við og mjólkinni. Ef ykkur finnst kremið of þykkt bætið þið við mjólk og ef ykkur finnst það of þunnt bætið þá við flórsykri. Mikilvægt er að hræra kremið mjög vel þegar maður ætlar að skreyta kökur því þá losnum við við alla smjörkekkina og kremið verður með fallega áferð. Því lengur sem þið hrærið því betra verður kremið. Kremið verður hvítara eftir því sem þú hrærir það lengur. Svo er um að gera að lita það með öllum regnbogans litum.

Skreytingarnar eru litskrúðugar að hætti Trolls.
Skreytingarnar eru litskrúðugar að hætti Trolls. Ljósmynd / Thelma Þorbergs
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert