Magnaðar kökuskreytingar Ingu

Hægt er að panta tertur hjá Ingu Maríu en baksturinn …
Hægt er að panta tertur hjá Ingu Maríu en baksturinn er liður í fjáröflun dóttur hennar. mbl.is/úr einkasafni

Inga María Leifsdóttir, verkefnastjóri viðburða í Gerðubergi, er mikill fagurkeri og fjölhæf með eindæmum. Það virðist allt leika í höndunum á henni hvort sem það eru kjólar sem hún hannar og saumar, myndlist eða markaðsfræðileg afrek. Að þessu sinni vakti hún athygli okkar með einstaklega lekkerum kökuskreytingum.

„Ég skreyti tertur reyndar bara með flórsykri. Ég er enginn snillingur í hefðbundnum tertuskreytingum en ég er menntuð sem myndlistarkennari og kann að skera eða klippa út form og hugsa í andstæðum. Það dugar oftast fyrir hressa flórsykurskreytingu, sem er einfaldlega útklippt form úr pappír sem er lagt ofan á kökuna og flórsykri stráð yfir með sigti. Síðan þarf bara að passa sig að vera ekki of skjálfhentur þegar formið er tekið af.“

Hvaða kökuuppskrift klikkar aldrei?

„Sú kökuuppskrift sem ég nota mest og eiginlega alltaf er að franskri súkkulaðiköku sem er súper einföld og örugglega helmingur þjóðarinnar kann að að baka en við vinkonurnar rífumst samt reglulega um hver okkar hafi bakað fyrst og „eigi hana“ þar með. Ef ein segir: „Inga, getur þú komið með frönsku súkkulaðikökuna þína?“ brjálast hinar (þetta er samt mín kaka). Og hana er líka mjög gott að skreyta með flórsykursmyndum.“


Þú ert snillingur í að halda boð. Hvaða partýtrixum lumar þú á?

„Ég er bæði að verða fertug á árinu og er líka að halda fermingarveislu í vor með elstu dóttur okkar svo það er víst eins gott að rifja upp partýtrixin. Þetta verða samt pottþétt mjög ólík boð. Fermingarveislan verður ráðsett og gamaldags með kransakökum og snittum en á fertugsafmælinu í haust ætla ég að fagna því að vera loksins komin á fimmtugsaldur sem mér skilst að sé besti aldur í heimi og hafa allt sjúklega töff og óvenjulegt.

Ég er mjög hrifin af veislum þar sem allur matur er í munnbitastærð. Mér finnst fátt leiðinlegra en að standa í röð og bíða eftir að fá mér og vil að allir geti helst bara ætt að borðinu og stungið strax upp í sig molum með hinu og þessu. Þess vegna hef ég stundum gert t.d. umrædda súkkulaðiköku í lítil konfektmót og ég passa alltaf að fá snittubrauðin sneidd í bakaríum ef ég er t.d. að bjóða upp á brauð og pestó. Enginn að rífa sér þriðjung af brauðinu í einu neitt, takk, og koma þar með við allt brauðið í leiðinni. Kjötbollur geri ég oft og þá gildir reglan: Einn munnbiti að stærð takk. Þetta styður líka vel við þá gullnu reglu: Þú mátt dýfa og bíta en ekki bíta og dýfa.“

Þessa smart tertu bakaði Inga fyrir uppskeruhátíð Baggalúts í ár. …
Þessa smart tertu bakaði Inga fyrir uppskeruhátíð Baggalúts í ár. Hana prýðir Mark Knopfler sjálfur. mbl.is/úr einkasafni


Skotheld húsráð að hætti Ingu?

„Kaupa eða tína fersk blóm þegar því verður mögulega komið við! Kveikja á að minnsta kosti einu kerti til hafa lifandi ljós á heimilinu. Eiga alltaf G-mjólk og kaffirjóma til öryggis. Svo get ég ekki hætt að dásama hana Rúmbu, sjálfvirku ryksuguna okkar. Hún er alveg sjötti heimilismeðlimurinn og okkur þykir öllum mjög vænt um hana,“ segir Inga og lumar í leiðinni á góðu og vannýttu ráði – það má gjarnan bara kaupa tertur tilbúnar! 

„Ef ykkur vantar franska súkkulaðiköku eru ég og fermingarbarnið að baka umræddar kökur til styrktar körfuboltamóti  sem hún er að fara á í Gautaborg í maí. Það er hægt að fá venjulega, glútenfría eða low-carb útgáfu og panta sérútbúna flórsykurskreytingu á kökuna (gegn veglegri greiðslu). Þið finnið okkur á Facebook-síðunni Kökur fyrir körfuboltamót.“

Hress barnaafmælisterta sem allir elska.
Hress barnaafmælisterta sem allir elska. mbl.is/úr einkasafni
Kristbjörn eiginmaður Ingu syngur alltaf með Baggalúti á jólatónleikum þeirra …
Kristbjörn eiginmaður Ingu syngur alltaf með Baggalúti á jólatónleikum þeirra og því var mjög viðeigandi að bjóða upp á þessa tertu á uppskeruhátíð hljómsveitarinnar fyrir þremur árum. mbl.is/úr einkasafni
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert