Prestmaddaman á Dalvík æsispennt

Margrét ásamt eiginmanni sínum, séra Oddi Bjarna Þorkelssyni, og Sunnevu, …
Margrét ásamt eiginmanni sínum, séra Oddi Bjarna Þorkelssyni, og Sunnevu, dóttur þeirra. Ljósmynd / Halldóra Kristín Bjarnadóttir

Prestmaddaman á Dalvík er með skemmtilegri konum á landinu og þótt víðar væri leitað. Hún er betur þekkt sem leikkonan Margrét Sverrisdóttir sem meðal annars stýrði Stundinni okkar af sinni alkunnu snilld sem Skotta. Margrét er gift Séra Oddi Bjarna Þorkelssyni og stýra þau hjónin sókninni af miklum myndarbrag. Margrét er jafnframt afskaplega hrifin af vöfflum og fagnaði hún óspart þegar hún komst að því að til var heill dagur tileinkaður vöfflum og hyggst hún halda hann hátíðlegan eins og henni einni er lagið.

„Ég var bara að uppgötva þennan frábæra dag í dag og er staðráðin í að halda upp á hann með því að gera heilan bing af belgískum vöfflum, segir Margrét og bætir því við að best væri að baka þær snemma og borða fyrst svona um kl. 11 með beikoni, banönum og sírópi. „Svo með kaffinu væri best að hafa rabbarbarasultu frá mömmu og þeyttan rjóma með. Það er reyndar líka gott að hafa alls konar ávexti líka en sultan og rjóminn standa alltaf fyrir sínu.“

Hún segist finna hvernig spennan magnast við það eitt að tala um vöfflurnar og má búast við að það verði mikil gleði á prestsetrinu á Alþjóðlega vöffludeginum sem haldinn er hátíðlegur í dag, 25. mars.

Prestmaddömmuvöflur að belgískum hætti

  • 5 dl hveiti
  • 2 tsk. lyftiduft
  • ½ tsk. salt (má vera pínu meira)
  • 4 stór egg
  • 2 msk. sykur
  • ½ tsk. vanilludropar (má vera pínu meira)
  • 4 msk. ósaltað smjör – brætt
  • 5 dl mjólk
  • pönnusprey

 Heil uppskrift gefur 12-14 vöfflur

Aðferð

  1. Sigtið saman hveiti, lyftiduft og salt. Leggið til hliðar.
  2. Í aðra skál skal nota viðarsleif til að hræra saman eggjarauður og sykur uns sykurinn er að fullu uppleystur og eggin eru orðin ljósgul.
  3. Bætið vanilludropunum, brædda smjörinu og mjólkinni saman við eggin og pískið saman.
  4. Blandið hveitiblöndunni saman við og pískið uns deigið er orðið slétt og fellt. Passið að hræra alls ekki of mikið.
  5. Í þriðju skálina skulið þið svo þeyta eggjahvíturnar með handþeytara uns þær eru orðnar stinnar og fínar. Blandið eggjahvítunni varlega saman við deigið með gúmmísleif. Passið að hræra alls ekki of mikið.
  6. Spreyið pönnuspreyinu á vöfflujárnið og hellið deigi á járnið. Lokið og bakið uns vöfflurnar eru orðnar gullinbrúnar og gómsætar að sjá.
  7. Berið vöfflurnar strax fram og njótið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert