„Sofna ekki við tilhugsunina um að hægelda hluti"

Ljósmynd/Mihaela Noroc

Þórunni Antoníu Magnúsdóttur er margt til lista lagt eins og kom bersýnilega í ljós þegar blaðamaður reyndi að ná í skottið á henni. Hún er með mörg járn í eldinum og eitt þeirra eru karókíkvöldin á Sæta svíninu sem hún stýrir með myndarbrag. Kvöldin hafa slegið í gegn og segir Þórunn að stemningin sé rosaleg. Hugmyndin hafi kviknað eitt sunnudagskvöldið þegar hún mætti á Bingókvöld hjá Siggu Kling sem sé stórvinkona hennar og stemningin hafi minnt meira á reif heldur en bingó.

Fljótlega hafi hún byrjað með karókíkvöldin á sama stað en stemningin minni hana á uppáhaldskvöldin hennar í London. Karoki er alltaf ávísun á skemmtilegt kvöld og allir þátttakendur fái vinninga. Sjálf elskar hún að fara út að borða og viðurkennir fúslega að hún sé ekki týpan sem pæli mikið í mat eða finnist yfir höfuð gaman að elda. Hún sé hins vegar afskaplega þakklát fyrir allt fólkið sem finnist það gaman. Okkur lék forvitni á að vita meira um karókíið og svo auðvitað uppáhaldsmatinn hennar.

Hvert er uppáhaldskarókílagið þitt? Sko, það er eiginlega Toxic með Britney eða Euphoria. Svo reyndar elska ég að heyra fólk syngja Total Eclipse of the hHart. Það er klassík.

Þorir fólk að spreyta sig? Já, það er nefnilega málið að það er kannski smá feimni fyrsta hálftímann en svo liggur við að fólk sláist um míkrófóninn undir lokin og ég og Dóra Júlía sem er dj kvöldsins skemmtum okkur alltaf alveg konunglega.

Hvaða lag er vinsælast? Það er soldið fyndið að I want it that way með Backstreat boys hefur verið sungið á ÖLLUM kvöldunum og yfirleitt af myndarlegum karlmönnum, sem er ekki hægt að kvarta yfir. Annars er fólk bara að syngja allt milli himins og jarðar því það eru eiginlega öll lög í boði, glæný og eldgömul.

Þórunn Antonía hefur slegið í gegn með karókíkvöldin sín á …
Þórunn Antonía hefur slegið í gegn með karókíkvöldin sín á Sæta svíninu.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn? Hollur matur, ferskur, ég borða á Gló vandræðalega oft enda er það hin fullkomna máltíð, nóg af grænmeti og öllu sem líkaminn þarf, annars elska ég líka fisk og sjúklega sterkan mexíkóskan mat.

Hvað finnst þér skemmtilegast að elda? Ég er ekki ein af þeim sem fæ gleði í hjartað við að elda. Ég geri það meira vegna þess að það er mér lífsnauðsynlegt að borða. Ég hef aldrei marinerað neitt og sofna ekki við tilhugsunina um að hægelda hluti. Ég er hins vegar mjög þakklát þegar fólk elskar að elda og vill elda fyrir mig annars fer ég mikið út að borða.

Hvaða matar gætir þú ekki lifað án? Sko, vöfflufranskarnar á Sæta svíninu með trufflu mæjó eru eiginlega til að lifa fyrir! Svo elska ég spínatsalatið á Sushi Social, Surf & Turf rúllan með og chilli Mohito. Ef ég væri í fangelsi og þyrfti að borða síðustu máltíðina væri það örugglega þetta allt.

Hvað er uppáhaldsmatur dóttur þinnar? Hún elskar franskar! En biður mig einnig um sellerí og gulrætur sem snakk milli mála. Ég er afskaplega ánægð með að hún elski grænmeti og ávexti jafnmikið og ég. Það er aldrei til nammi eða sukk inni í okkar skápum en nóg af hnetum, döðlum og svoleiðis nammi.

Eldið þið mikið saman? Nei, hún er bara tveggja ára og ég er ekki beint að henda henni í eldhúsverkin strax, þótt hún eigi litla eldhúseiningu inni í herberginu sínu og „eldi“ fyrir mömmu sína af og til, en hún er algjör dúlla og elskar að leggja á borð og ég gef henni lisrtænt frelsi til þess og þá velur hún mynstraða blómadiska sem eru úr Borði fyrir tvo, svo drekkum við yfirleitt úr „prinsessu“-glösum sem eru bara svona ódýr Ikea-glös með fæti sem henni finnst alveg æðislegt að fá að drekka úr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert