Plokkfiskbaka Laugalækjar

Ólafur Stefánsson kokkur og Hörður, annar eigenda staðarins, ríghalda í …
Ólafur Stefánsson kokkur og Hörður, annar eigenda staðarins, ríghalda í hverfisrómantíkina með góðum mat og ljúfri stemmningu. mbl.is/Árni Sæberg

Gamla Verðlistahúsið hefur tekið umskiptum og þar er nú að finna sérlega aðlaðandi kaffihús sem slegið hefur í gegn meðal íbúa hverfisins enda hafa viðtökurnar verið framar björtustu vonum. Það eru félagarnir Hörður Jóhannesson og Björn Arnar Hauksson sem standa að baki Kaffi Laugalæk. Þá hafði dreymt um að reka sinn eigin veitingastað frá því þeir voru ungir og þegar rétta húsnæðið rataði upp í hendurnar á þeim létu þeir slag standa. Hönnun staðarins ber hugmyndafræðinni merki og er leitast við að nota einungis sjálfbæran efnivið í húsgögn og annað. Segir Hörður að þeir félagar hafi lagt mikla áherslu á að hafa allt eins umhverfisvænt og kostur var enda rími það vel við stefnu staðarins.

Virku kvöldin komu á óvart

Hörður segir að fólkið í hverfinu hafi tekið þeim fagnandi. Hann hafi alveg eins átt von á einhverjum mótmælum en raddir þeirra sem fögnuðu komu þeirra voru mun háværari og fólkið í hverfinu ánægt með að vera loksins búið að finna sér sinn samastað.

„Það kom okkur eiginlega mest á óvart hvað virku kvöldin eru sterk, segir Hörður og er þá að vísa til þeirra hefða sem hafa skapast á kvöldin með bjórtilboðum, tónlistarflutningi og öðrum uppákomum. Ávallt er boðið upp á rétti dagsins og var flatbakan frá þeim nýlega valin ein af bestu flatbökum Reykjavíkur af Grapevine. Eftir að hafa smakkað dásemdina tökum við fyllilega undir þann dóm og mælum hiklaust með. Matseðillinn er einfaldur en uppfullur af alls konar góðgæti. Geiteyjarströnd er salat með reyktum silungi úr Mývatnssveit sem bragðast dásamlega og við smökkuðum jafnframt á lambaskanka sem var til háborinnar fyrirmyndar.

Barnamatseðillinn hefur einnig mælst vel fyrir og segir Hörður að fólkið í hverfinu komi mikið á staðinn og fái sér kvöldmat. Barnamaturinn sé einfaldur og góður. Boðið eru upp á rétti eins og plokkfisk og barnaflatböku, auk hins sígilda grjónagrautar sem ávallt er borinn fram með lifrarpylsu sem hann segir að börnin séu sólgin í.

Barnamatseðillinn hefur einnig mælst vel fyrir og segir Hörður að …
Barnamatseðillinn hefur einnig mælst vel fyrir og segir Hörður að fólkið í hverfinu komi mikið á staðinn og fái sér kvöldmat. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bullandi hverfisrómantík

Allar kökurnar hjá okkur eru heimabakaðar og við leggjum mikið upp úr kaffinu hjá okkur. Við ætlum að vera með besta kaffi í Reykjavík, segir Hörður brosandi. „Eins leggjum við mikið upp úr að halda tryggð við hverfið og reynum að sækja allt hráefni eins nálægt okkur og kostur er. Við erum með pylsur frá Pylsumeistaranum hér á horninu og notum á samnefnda súrdeigsflatböku, Óður til Laugaáss er síðan flatbaka með plokkfisk, bernaise og rúgbrauði sem er – eins og nafnið gefur til kynna – óður til hins sívinsæla veitingahúss Laugaáss sem einnig er að finna í hverfinu.

Merkilega miðsvæðis

Laugarneshverfið er gamalgróið en Hörður segir að samsetning íbúanna henti þeim fullkomlega. Mikið sé af eldra fólki í hverfinu sem komi til þeirra yfir daginn og fái sér kaffi og heimabakaðar kökur en um það bil þegar sá hópur hverfur á braut fer fjölskyldufólkið að mæta með börnin. Á kvöldin kemur svo fólk með vinum sínum. Mikið sé lagt upp úr því að hafa aðstöðuna fyrir börnin góða og þeir hafi til að mynda fækkað borðum í veitingarýminu. „Það er nánast alltaf fullt hjá okkur í dögurðinum um helgar. Þetta var orðið helst til þröngt þar sem það var mikið af krökkum á svæðinu sem þurftu sitt pláss. Við ákváðum því að fækka frekar borðum og auka þægindi gesta. Dögurðurinn hefur einmitt slegið í gegn og segir Hörður að það sé að færast í aukana að fólk úr öðrum hverfum leggi leið sína til þeirra. „Við erum í hjarta bæjarins ef út í það er farið og greinilegt að fólk er sammála okkur. Sumir nenna sjálfsagt ekki að fara niður í bæ og finna sér stæði. Hver svo sem ástæðan er þá finnum við fyrir mikilli aukningu gesta úr öðrum hverfum. Og tökum þeim auðvitað fagnandi.

Staðir eins og Kaffi Laugalækur og Kaffihús Vesturbæjar verða mikilvægir samkomustaðir í hverfunum og miðað við viðtökurnar þá er þörf á að auka enn á flóruna. Greinilegt að veitingastaðir eiga ekki lengur bara heima í miðbænum enda er það eðlileg þróun í lifandi borg að hverfin séu sem fjölbreyttust og litríkust. Vertarnir á Kaffi Laugalæk eru í það minnsta búnir að finna sér sinn samastað og una vel við sitt.

Plokkfiskbaka og einn kaldur eru draumatvenna.
Plokkfiskbaka og einn kaldur eru draumatvenna. mbl.is/Árni Sæberg

Óður til Laugaáss

Plokkfiskur

560 gr. ýsa
560 gr. kartöflur
2 laukar
350 ml mjólk
55 gr. smjör
3 msk. hveiti
salt og pipar

Aðferð

Flakið, úrbeinið og skerið fiskinn í bita. Skerið kartöflurnar í bita og saxið laukinn. Hitið mjólkina upp að suðu í potti.

Á meðan mjólkin er að hitna skal bræða smjörið á pönnu og steikja laukinn. Passið að hann brúnist ekki.

Sáldrið hveiti yfir laukinn, hrærið vel og eldið í 1-2 mínútur. Bætið rólega við heitu mjólkinni, hrærið vel og eldið í 3-4 mínútur.

Bætið fiskinum og kartöflunum saman við, hrærið vel og kryddið með salti og pipar eftir smekk.

Bakan

Plokkfiskur
Rúgbrauð
Salat
Bernaise-sósa
Cherry-tómatar (ofnþurrkaðir)
Heimagert pesto
150 g súrdeigsflatbökudeig

Aðferð

Fletjið deigið út.

Smyrjið með olíu og setjið plokkfiskinn ofan á deigið. Bætið síðan við nokkrum bitum af ristuðu rúgbrauði og sáldrið loks bernaise-sósunni yfir.

Bakið við 220 gráður í 10 mínútur.

Skerið flatbökuna í sex sneiðar og setjið með ferska salatið ásamt pestó og ofnþurrkuðu cherry-tómötunum.

Staðurinn er virkilega heimilislegur.
Staðurinn er virkilega heimilislegur. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Það er gaman að taka göngutúr og koma við á …
Það er gaman að taka göngutúr og koma við á Kaffi Laugalæk og fá sér hressingu. mbl.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert