Draumur saltfiskunnandans

Kristinn Magnússon

Saltfiskkrókettur er virkilega bragðgóð og skemmtilega hressandi tilbreyting á veisluborð sem svigna gjarnan undan klassískari veitingum. Sítrónubörkurinn gefur krókettunum ferskan keim og sósan er virkilega góð. Þessi uppskrift er frá matreiðslukonunni knáu Anítu Ösp Ing­ólfs­dótt­ur.

500 g saltfiskur – soðinn
500 ml mjólk
100 g smjör
120 g hveiti
2 stórir laukar
3 meðalstór hvítlauksrif
3 stórar bökunarkartöflur
1 sítróna – börkurinn
2 tsk. hvítlaukspipar
1 tsk. cayenne-pipar
salt
pipar
200 g Panko-raspur – japanskur
2 stk. egg
smá hveiti
olía til steikingar

Laukurinn og hvítlaukurinn skornir smátt og steiktir við lágan hita í potti með smjörinu, hvítlaukspiparnum og cayenne-piparnum, best er að leyfa þeim að mýkjast við lágan hita í langan tíma, en það er þó ekki nauðsynlegt, ekki á að brúna þá.

Þá er hveitinu hellt út á og hrært saman við, þetta þarf að gera á lágum hita. Þá er mjólkinni bætt út í rólega, blandan þykknar fyrst vel en þynnist svo aftur út. Gott er að hafa sósuna frekar þykka, þá verða króketturnar safaríkari.

Kartöflurnar flysjaðar og soðnar sem og fiskurinn. Fiskinum og kartöflunum er blandað saman út í sósuna svo að þetta líkist helst plokkfiski. Sítrónubörkurinn er rifinn út í og smakkað með salti og pipar. Blandan er kæld.

Þegar blandan er orðin köld eru búnar til litlar kúlur úr henni, þeim síðan velt upp úr hveiti, síðan eggjum og að lokum raspinum. Síðan eru þær djúpsteiktar í 180°C heitri olíu þar þær eru til gullinbrúnar.

Hvítlauks/timjan-tómatsósa

5 hvítlauksgeirar
olía
1 dós tómatar, maukaðir
2 greinar timjan, ferskt
2 tsk. pipar
1 msk. eplaedik
1 msk. hunang
salt

Hvítlauksgeirarnir flysjaðir og hægeldaðir í olíu, þeir þurfa að vera alveg á kafi í olíu. Sirka í 40 mín. á mjög lágum hita, þeir verða ljósbrúnir að lit þegar þeir eru tilbúnir.

Í matvinnsluvél fara síðan öll önnur innihaldsefni og hvítlaukurinn, maukað vel saman og smakkað til með salti. Olían af hvítlauknum er síðan rosalega góð svo gott er að geyma hana til seinni tíma notkunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert