Tók mynd af öllu sem hún borðaði í 30 daga og þetta gerðist

Apríl sá einna mest eftir að hafa borðað tvo súkkulaðikleinuhringi …
Apríl sá einna mest eftir að hafa borðað tvo súkkulaðikleinuhringi klukkan 11 um kvöld. Þeir eru þarna svartir og stórhættulegir á annars nokkuð litríkri og heilbrigðri mynd. mbl.is/ April Ruab

Flestir einkaþjálfarar og líkamsræktarkennarar ráðleggja fólki sem vill grenna sig að halda matardagbók til að fylgjast með mataræðinu og geta rakið árangurinn. Pistlahöfundurinn April Rueb skrifar líklega nóg dagsdaglega svo hún ákvað að halda matardagbók í 31 dag en í stað þess að skrifa niður hvað hún borðaði tók hún myndir af öllu sem hún setti ofan í sig.  Mun fljótlegra og nákvæmara. Þetta er það sem gerðist í kjölfarið:

Hún lærði að segja NEI!
„Þegar ég renndi í gegnum myndapakkann í lok mánaðarins og sá mynd sem mér blöskraði og hugsaði af hverju í andskotanum át ég þetta? – komst ég að því að allt það fáránlega sem ég borðaði og sá eftir var eitthvað sem ég fékk ókeypis. Ég er ekki hrifin af kökum en borðaði köku í brúðkaupi. Viðbjóðslegt kex sem bragðaðist eins og krít – ég át tvö því samstarfsmaður minn rétti mér það. Ég þarf að læra að segja nei við ókeypis mat sem ég myndi annars ekki borða!“ lýsir April í grein sem birtist á Prevention.com.

Vigtin varð hagstæðari
Á 31 degi léttist April um 2 kíló. Hún var þó ekki að reyna að létta sig og var í kjörþyngd en hún segir ástæðuna fyrir þyngdartapinu vera augljósa. „Það tók mig um 10 sekúndur að finna símann, opna myndavélina og smella. Á þeim tíma náði ég yfirleitt að hugsa af hverju er ég að borða þetta? Stundum var ég svöng, eða af því að maturinn var ókeypis eða hreinlega af því bara en þá hætti ég oft við. Ekki alltaf en oft.“

Minni matarsóun
Með því að renna yfir myndirnar sá hún hvað hún hafði borðað síðustu daga og átti auðveldara með að meta hvað hún þyrfti næstu daga.  April sagðist til dæmis yfirleitt kaupa of mikið eða of lítið af eplum. Með því að skoða myndirnar komst hún að því að hún borðaði 14 epli síðasta mánuðinn og því gæti hún áætlað að 3-4 epli í viku væri það sem hún myndi í raun borða. Þannig rakti hún venjur sínar og gerði mun fókuseraðri innkaupalista en áður.


Hún fann „vandamála“-matinn sinn
Þegar hún fletti í gegnum myndirnar kom fljótt í ljós af hverju hún var að borða of mikið. Guacamole var sökudólgurinn. En avókadó er holl fita gætu þið hugsað? Mikið rétt en vinkona okkar borðaði alltaf nachos-flögur með og of mikið magn af guacamole í hvert sinn. Það er að segja þessi fæðutegund var sú fæða sem hún gat ekki hamið sig í og borðaði alltaf of mikið. Hún ákvað því að hætta að kaupa það en fá sér sitt uppáhald á veitingastöðum eða í veislum þar sem hún myndi fá takmarkaðan skammt og læra þannig á sinn stoppara.


Peningaeyðslan minnkaði
Myndir af rándýru tilbúnu og mjög óspennandi salati sem hún keypti sér gjarnan í hádegismat urðu til þess að hún fór að pakka sjálf nesti. Það var hreinlega of pirrandi að skoða hversu miklu hún eyddi í óspennandi mat.
 

April viðurkennir fúslega að til að byrja með hafi hún búist við að lítið annað kæmi út úr tilrauninni en nokkrar góðar matarmyndir fyrir Instagram. Raunin var þó sú að eftir að hafa tekið yfir 100 matarmyndir á 31 degi hefur samband hennar við mat breyst. „Ég er hætt að stinga bara upp í mig. Nú hugsa ég af hverju er ég að borða þetta?“ segir April sem er hætt að mynda matinn en rígheldur í þessi 6 orð til að vanda fæðuvalið.

April er skemmtilegur penni og skrifar reglulega á hina ýmsu …
April er skemmtilegur penni og skrifar reglulega á hina ýmsu bandarísku miðla eins Women’s Health. mbl.is/aprilrueb.com
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert