Bestu bernaise-trixin

Bearnaise sósa þykir besta sósa í heimi að margra mati.
Bearnaise sósa þykir besta sósa í heimi að margra mati. AFP

Við kenndum ykkur á dögunum mjög einfalda aðferð við að búa til hina goðsagnakenndu bernaise-sósu sem margur óttast mikið.

Jafnan hefur verið alið á mikilli hræðslu við þessa rómuðu sósu enda eru allar líkur á að hún misheppnist í meðförum hversdagskokka og jafnvel reyndustu kokkar hafa lent í þeirri miklu hneysu að sósan „skilji” eins og það kallast þegar eggjarauðurnar hætta að bindast smjörinu.

Það kallar yfirleitt á mikil tilþrif og öllu gummsinu er hent í ruslið og oftar en ekki er máltíðin ónýt.

En allt þetta er óþarfi því eins og meðfylgjandi myndband sýnir er sáraeinfalt að búa til alvöru bearnaise og ekkert mál að stilla til friðar ef til skilnaðar kemur.

Hér eru nokkur góð ráð sem nauðsynlegt er að kunna:

  1. Mikilvægt er að þeyta eggjarauðurnar vel upp áður en þið byrjið að blanda smjörinu saman við.

  2. Sumum finnst nauðsynlegt að handþeyta sósuna en öðrum finnst það bara óþarfa vesen.

  3. Þegar eggin eru handþeytt er það oftar en ekki gert yfir heitu vatnsbaði. Það kallast að “legera” eggin og veldur það einhverri lágmarkseldun á þeim þannig að þau þykja öruggari til neyslu.

  4. Almennt eru egg fullkomlega örugg fæða.

  5. Ef þú vilt hins vegar ekki taka neina áhættu er hægt að kaupa gerilsneyddar eggjarauður út í búð.

  6. Þumalputtareglan er að ein eggjarauða vegur 20 gr.

  7. Önnur þumalputtaregla er að reikna skal með einni eggjarauðu á mann þannig að ef þú ert með fimm manna matarboð notar þú fimm eggjarauður og 500 grömm af smjöri.

  8. Okkur finnst þetta vitleysa og mælum með tveimur á mann. Þá verður bara smá afgangur sem hægt er að nota daginn eftir.

  9. Mikilvægt er að bræða smjörið en passa að það sé alls ekki of heitt þegar byrjað er að hella því saman við eggjarauðurnar.

  10. Mjög mikilvægt er að hella rólega til að eggjarauðurnar nái að bindast smjörinu.

  11. Ef að sósan skilur sig skaltu taka blönduna til hliðar. Þeyta upp nýja eggjarauðu og hella svo skilnaðarblöndunni rólega saman við og sósan bindur sig á ný.

  12. Þegar smjörið er allt komið út í má byrja að krydda. Smakkið vel til og ekki vera nísk á bragðefnin. Sósan verður að hafa smá kraft.

  13. Ef sósan er of þykk skulið þið þynna hana með smá vatni.

  14. Gott er að geyma sósuna í hitabrúsa eftir að hún er tilbúin því maður vill sem minnst eiga við hana eftir að hún er tilbúin.

  15. Bearnaise sósa er upprunnin í Frakklandi eins og við er að búast.

  16. Ein matskeið af bearnaise sósu inniheldur 60 hitaeiningar.

  17. Í gamla daga trúðu menn því að sósan væri bráðdrepandi og orsakaði hjartaáföll og kransæðastíflur. Í dag vitum við að smjör er bráðhollt.
Á heimasíðu Lólýar loly.is er að finna góða uppskrift af …
Á heimasíðu Lólýar loly.is er að finna góða uppskrift af bernaise-sósu. mbl.is/loly.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert