Svona forðast þú drama í fermingarveislunni

Fermingardagurinn getur valdið kvíða og því er gott að fara …
Fermingardagurinn getur valdið kvíða og því er gott að fara vel saman yfir hvernig skuli haga veislunni. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Albert Eiríksson birti þennan góða pistil á heimasíðu sinni í dag. Þar leynist mikið af góðum ráðum fyrir verðandi fermingarbörn og fjölskyldur þeirra.

Fermingarundirbúningur, -gjafir og nokkur góð ráð fyrir fermingarbörn, foreldra og aðra.

„Það er að mörgu að huga varðandi fermingarundirbúning og fermingarveislur. Það er eins með fermingar veislur og aðrar veislur: Skipulagið er mikilvægt og allur undirbúningur. Í mínu ungdæmi var oft talað um að við fermingu væru börnin komin í tölu fullorðinna. Nú er sem betur fer öldin önnur og börnin fá að vera börn áfram.

Verða fermingarbörnin að halda ræðu, bjóða fólk velkomið og bjóða því að gjöra svo vel? 

Ef fermingarbarnið vill það ekki á ekki að neyða það til þess. Við sem erum fullorðin viljum ekki láta neyða okkur til að gera hluti sem okkur langar ekkert til. Hins vegar er hér gullið tækifæri til að prófa að vera „fullorðins“, taka til dæmis fallega á móti gestum þegar þeir koma. Þegar allir eru komnir, er mjög þakklátt ef fermingarbarnið stendur upp, þakkar gestum fyrir að gleðjast með sér og býður fólki að gjöra svo vel. Munið bara að tala hátt og skýrt svo gömlu frænkurnar heyri hvert atkvæði. Eins er flott að fermingarbarnið sé sýnilegt í veislunni, gangi á milli gesta og spjalli smávegis. Það er sennilega erfiðasti hlutinn fyrir suma, en þá er gott að vera búinn að fara í gegnum umræðuefni fyrirfram, oftast þarf bara eina setningu eða spurningu til að brjóta ísinn (langt síðan ég hef séð ykkur, – hvernig erum við aftur skyld?, – hvernig hafið þið það? o.s.frv.) og þá eru gestirnir fljótir að taka við sér og leiða samtalið. Í lokin er svo mikilvægt að vera til taks til að kveðja í lokin og þakka fyrir komuna. Þetta er allt hægt að æfa í undirbúningnum. Það er einmitt frábært ef fermingarbarnið tekur fullan þátt í skipulagningu og undirbúningi, hefur til dæmis áhrif á það hvaða veitingar eru á boðstólum, hvað er hægt að gera annað en að borða, drekka og fara svo heim. Þá koma söngur eða leikir, sem allir geta tekið þátt í, sterklega til greina.

Gjafir

Það er aldrei háttvísi að ætlast til gjafa, hvert sem tilefnið er. Fermingarbarn getur skrifað óskalista, en ekki er smekklegt að láta hann fylgja boðinu. Foreldrarnir þekkja best áhugamálin og vita oftast nokkurn veginn hvað barnið vanhagar um og geta komið því áleiðis, ef upplýsinga er óskað. Ekki er þó við hæfi að nefna mjög dýra hluti.
Samt sem áður er ljóst að hefð er fyrir gjöfum til fermingarbarna og því þarf að hafa ákveðinn stað tilbúinn fyrir gjafir sem berast. Þá þarf að gæta þess að kortið verði ekki viðskila við pakkann eða gjöfina þegar búið er að taka hana upp. Það auðveldar manni að muna hver kom með hvað og þannig verður meira gaman að þakka fyrir þá hugulsemi sem er á bak við hverja gjöf.Smekksatriði er hvort opna beri gjafir í boðinu sjálfu. Oft snýst það upp í vandræðalegan samanburð. Hugsum okkur að upp komi sú staða, að Nína frænka hefur komið með dansk-íslenska orðabók, en Rósa frænka í hina ættina kom með alveg eins, en hún kom bara líka með íslensk-danska orðabók. Þetta verður neyðarlegt, ef gjafirnar eru teknar upp fyrir framan alla. Allra hallærislegast er að rétta gjafirnar upp og segja: Þetta er frá Palla frænda og Hermínu! Munum að það er ekki stærð eða verðmæti gjafarinnar, sem skiptir máli, heldur góður hugur sem býr að baki.
Ein hugmynd frá Noregi er að gjafirnar séu opnaðar á gjafaborðinu og kortið sett undir viðkomandi gjöf. Þannig geta gestir skoðað gjafirnar áður en þeir fara, án þess að þeir viti hver gaf hvað.

Eftir ferminguna

Góður siður er að senda kveðju á netinu til að þakka fyrir gjafir, skeyti eða kveðjur, gjarnan með mynd af sér sem var tekin á fermingardaginn. Það getur verið t.d. á þessa leið: „Elsku Sigurbjörg og Atli! Bestu þakkir fyrir komuna í fermingarveisluna mína. Bókin á eftir að koma sér rosalega vel. Takk fyrir hugulsemina. kveðjur í bæinn frá okkur öllum. Finnur Sveinsson”. Einnig mætti benda á myndir úr veislunni á heimasíðu. En eins og áður er nefnt er samt best að það sé orðað á persónulegan hátt og kannski í samræmi við húmor viðkomandi. Ef peningagjöf hefur borist, er skemmtilegt að tilgreina hvernig hún verður notuð.
Umstangið og veislan eru ekki sjálfsagður hlutur og þakklæti skal vera manni ofarlega í huga, en festum okkur vel í minni að reyna að halda lífsregluna þá bestu sem felst í fermingarheitinu. Góða skemmtun! Þokkalega.

Albert Eiríksson og Þorsteinn Björnsson.
Albert Eiríksson og Þorsteinn Björnsson. mbl.is/Helenda

Albert Eiríksson og Þorsteinn Björnsson. Fermingardagurinn minn byrjað á því að ég fór í fjárhúsið til að athuga með sauðburð sem þá var að byrja. Við Þorsteinn fermdumst tveir í Kolfreyjustaðarkirkju árið 1980. Rúmum mánuði síðar kaus þjóðin sér nýjan forseta og eðlilega lituðust umræður í veislunni af kosningabaráttunni – ekki síðst því að einstæð kona var í framboði. Það var enginn tími í sauðburðinum til að fara í fermingarmyndatöku og því fórum við þorsteinn saman til Helenu ljósmyndara fimmtán árum síðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert