Hversu lengi endist flaskan?

Margir velta því fyrir sér hver líftími vínflösku sé eftir að búið er að opna hana enda mikil synd að farga góðri flösku vegna skemmda. Svavar Örn frystir til dæmis alltaf afgangsvínið á sínu heimili og notar í sósur.

Vínsérfræðingurinn Marissa Ross tók saman nokkur þumalputtaráð sem hafa ber í huga. Hún segir þó að hafa beri í huga að vín séu eðli málsins samkvæmt mjög ólík að gerð og samsetningu og því sé misjafnt á milli tegunda hversu lengi það endist.

1. Þumalputtareglan sé þó sú að setja tappann aftur í flöskuna og stinga henni í kæli. Það kemur í veg fyrir að vínið komist í snertingu við of mikið súrefni, ljós eða hita, sem eru allt þættir sem hraða hrörnun vínsins. Sé vínið geymt með þessum hætti endist það í tvo til fimm daga. Freyðivín endist í einn til þrjá daga en verður yfirleitt flatt mjög fljótt.

2. Vín eru misjöfn og almennt er reglan sú að sé vínið tannínríkt endist það upp undir viku en lífræn vín séu viðkvæmari.

3. Jafnframt brýnir Ross fyrir fólki að venja sig á að loka flöskunum eftir að búið sé að hella úr þeim í stað þess að láta þær standa opnar á borðinu svo klukkustundum skiptir. Slíkar forvarnaraðgerðir skipti máli ef útlit er fyrir að vínið muni ekki klárast það kvöldið þar sem hver klukkustund telur.

Heiðar Kristjánsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert