Fullkomin sous-vide andarbringa að hætti Stefáns

Fljúgðu til Bretlands hvað þetta er girnilegt!
Fljúgðu til Bretlands hvað þetta er girnilegt! mbl.is/Stefán Valmundar

Stefán Valmundarson hljóðhönnuður býr í York á Englandi ásamt sambýliskonu sinni. Stefán birti hrikalega girnilega mynd af andabringum á facebook sem setti svo sannarlega munnvatnskirtlana af stað í flestum. Eftir knús og krúttræðu deildi Stefán með okkur uppskriftinni. 

Stefán segir bringurnar aldrei klikka þegar hann eldar þær með …
Stefán segir bringurnar aldrei klikka þegar hann eldar þær með þeim hætti sem hann lýsir hér að neðan. mbl.is/Stefán Valmundar

„Þetta voru 4 penar andabringur frá austurhlusta Bretlands. Ég henti tveimur saman í Ziploc poka með örlítilli olíu og timían greinum. Þær fá svo að malla í 55 gráðu heitu vatnsbaði í allavega 2 tíma. Þegar allt meðlæti er tilbúið og sósan orðinn þykk og falleg tek ég bringurnar úr baðinu, þurrka vel og sker demantaminstur í fituna (það er gert til að ná jafnri steikingu á fituna og hún kurlist ekki upp).

Ég salta fituna vel og legg bringurnar á mjög heita og þurra pönnu á fituhliðina. Þegar fitan er aðeins farin að bráðna set ég timían á pönnuna og salta bringurnar kjöt megin. Þegar fitan er orðin stökk og gullinbrún sný ég bringunum við og steiki á kjöt hliðinni í 30 sekúndur eða svo. Fullkomnar andabringur í hvert skipti,“ segir Stefán sem bauð upp á appelsínusósu, hasselback kartöflur með rósmarín og salti, smjörsteiktar gulrætur og rósakál í ofni.

„Við erum búin að eiga þessa frábæru Sous Vide græju frá Anova síðan fyrir jól, klárlega eitt besta tólið í eldhúsinu í dag,“ segir Stefán alsæll með lífið.

Stefán er hljóðhönnuður og sous-vide snillingur.
Stefán er hljóðhönnuður og sous-vide snillingur. mbl.is/Stefán Valmundar

Unaðsleg appelsínusósa

3-4 skarlottlaukar
Smjör
Hvítur pipar (1/3 tsk)
Afskurður af önd (fita og kjöt)
500 ml kjúklingasoð
Púrtvín
Grand Marnier
2 appelsínur
Andakraftur
Sykur

Byrjið á að mýkja 3-4 skalottlauka í stórum potti í klípu af smjöri og dass af hvítum pipar en passa þarf að laukurinn fari ekki að brúnast.

Setjið svo laukinn til hliðar á pottinum og steikja afskurð af öndinni(fitu og kjöt). Þegar laukurinn er orðinn nokkuð glær og kjötið vel steikt fara 500ml af góðu kjúklingasoði í pottinn ásamt 1,5 dl af púrtvíni og dass af dökkri sojasósu.

Það er mjög gott að setja andakraft út þessu stigi, cirka 1 matskeið eða einn boullion.

Leyfa þessu að sjóða niður um cirka 3/4. Í öðrum potti eru svo 2 matskeiðar af sykri blandaðar með smá vatni. Sykurinn er bræddur niður hægt og rólega á miðlungs háum hita og svo er 1,5 dl af Grand Marnier og 1dl af nýpressuðum appelsínusafa hellt útí(cirka ein appelsína).

Leyfa þessari blöndu að sjóða niður um helming eða svo. Eftir þetta er innihaldi fyrri pottsins sigtað út í sykurblönduna og soðið niður þangað til áferðin er þykk og falleg. Þegar maturinn er að fara á borðið er smjörklípu hent út í sósuna sem og nokkrum skinnlausum appelsínusneiðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert