Kjúklingur með beikoni og ananas

Ljósmynd / Half Baked Harvest

Hvað eiga ananas, hrísgrjón, beikon og kóreisk BBQ sósa sameiginlegt? Þau eru öll hráefni í þessum girnilega rétti sem er akkúrrat það sem þarf til að gera tilveruna betri.

Í grunninn erum við að tala um steikt hrísgrjón og það vita flestir sem hafa borðað steikt hrísgrjón að þau eru dásamlegt. Kóreisk BBQ sósa er fremur einföld en finna þarf annað hvort gochujang eða sriracha.

En hér er uppskriftin - vonandi njótið þið vel.

Kimchi kúklingur með beikoni og ananas

Kóreisk BBQ sósa

  • 1/4 bolli saltskert soya sósa
  • 2 msk gochujang eða sriacha
  • 1 msk hunang
  • 1 msk engifer - ferskt og rifið
  • 1 hvítlauksgeiri - saxaður

Steikt hrísgrjón

  • 3 msk sesamolía
  • 3 egg - pískuð krydduð með salti
  • 4 sneiðar af beikon - þykkar sneiðar saxaðar niður
  • 200 gr kjúklingabringa - skorin niður
  • 1 lítil dós af ananasbitum
  • 4 bollar elduð hvít hrísgrjón eða kínóa
  • 1 bolli frosnar grænar baunir (alls ekki niðursoðnar)
  • 1 bolli kimchi sósa
  • 1/2 bolli ferskt sílantró
  • 2 vorlaukar, saxaðir
  • pipar eftir smekk
  • ristuð sesamfræ

Aðferð

Kóreisk BBQ sósa

  1. Blandið hráefnunum saman og hrærið vel saman. Leggið til hliðar.

Steikt hrísgrjón

  1. Setjið stóra pönnu eða wok pönnu á miðlungshita. Setjið ögn af sesamolíu á pönnuna. Þegar pannan er orðin heit skal setja eggin á pönnuna og elda þau þar til þau eru byrjuð að hvítna á köntunum. Þá má hræra þau varlega og elda uns þau eru tilbúin. Takið eggin af pönnunni og leggið til hliðar. Þerrið pönnuna með eldhúspappír og setjið aftur á eldavélina.
  2. Setjið beikonið á pönnuna og eldið uns það er orðið stökkt og brakandi. Þerrið beikonið með eldhúspappír. Hellið nánast allri beikonfitunni af pönnunni. Setjið ögn af sesamolíu líka og passið að pannan sé miðlungsheit.
  3. Setjið kjúklinginn á pönnuna og 2-3 msk af BBQ sósunni. Eldið uns sósan hefur húðað allan kjúklinginn og hann er orðinn gegneldaður. Setjið kjúklinginn á disk með beikoninu.
  4. Setjið aftur sesamolíu á pönnuna. Þegar hún er orðin heit skal setja hrísgrjónin og ananasinn á hana og hræra í 2-3 mínútur. Því næst skal bæta við baununum og kimchi sósunni og elda þar til maturinn er orðinn heitur í gegn. Setjið þá eggin, beikonið og kjúklinginn saman við og eldið í mínútu eða svo. Takið af pönnunni og bætið við vorlauknum og sílantróinu.
  5. Setjið í skálar og hellið smá kóreiskri BBQ sósu yfir og nokkrum sesamfræjum.
Ljósmynd / Half Baked Harvest
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert