Fiskur með greipkarrísósu, banönum og kókoshrísgrjónum

Bananar í fiskréttum, annaðhvort steiktir sér eða eldaðir með í sósu, gera einhver töfrabrögð. Að hafa banana með kvöldmatnum er sérstaklega vinsælt í Suður-Ameríku enda milda þeir oft annars svolítið sterka rétti. Og gefa þeir matnum líka svona lungamjúka áferð.

Kókosmjöl passar líka vel við fisk, í þessum rétti eru þau hins vegar sett út í meðlætið; hrísgrjónin.

1 kg hvítur fiskur að eigin vali
smjör til að smyrja mót með
¼ bolli hveiti
salt og ferskur pipar
1 msk. kókosolía
2 msk. smjör
2 msk. fínt skorinn skalottlaukur
1 msk. fínt skorið engifer
2 tsk. sykur
1-2 tsk. karrí
cayenne-pipar á hnífsoddi
1 bolli nýmjólk
1 bolli matreiðslurjómi
½ rautt eða bleikt greip
1 frekar lítið þroskaður banani
1-2 msk. fínt skorin rauð paprika og graslaukur til skrauts
½ grænmetis- eða kjúklingakraftsteningur eftir smekk

Hitið ofninn í 200 °C og smyrjið eldfast mót með smjöri.

Skrælið og fræhreinsið greipið, skerið það svo í 1 cm litla bita, fjarlægið allt aukalegt innra innvols líka af greipkjötinu. Setjið greipbitana til hliðar í skál. Afhýðið bananann og skerið í sneiðar. Blandið saman við greipbitana.

Blandið hveitinu saman við ¾ tsk. af salti og smávegis af pipar, dreifið blöndunni á plötu eða disk. Skerið fiskinn í mátulega stóra bita til steikingar. Veltið fiskinum varlega upp úr hveitiblöndunni. Hitið kókosolíuna og 1 msk. af smjöri í stórri pönnu við miðlungshita. Léttsteikið fiskinn þar til hann er fallega gylltur, eða í um 1 mínútu á hvorri hlið. Setjið fiskinn í smurt eldfast mótið og bakið í ofni í tæplega 8 mínútur. Setjið 1 msk. af smjöri á pönnu meðan fiskurinn bakast og steikið laukinn og engiferið við miðlungshita í 2 mínútur. Bætið sykri, karríi og cayenne-pipar út í og steikið í mínútu í viðbót. Bætið mjólk og rjóma saman við, greipi og bananasneiðunum og sjóðið saman í 3 mínútur. Smakkið til með salti og pipar. Ef ykkur finnst vanta meira bragð má mylja grænmetis- eða kjúklingakraft yfir. Þegar fiskurinn er bakaður í ofninum er annaðhvort hægt að bera hann fram með því að hella sósunni yfir hann eða setja hann á sér fat og hafa sósuna til hliðar.

Kókoshrísgrjón

3 msk. kókosolía
2 msk. kókosmjöl, helst ferskt og grófskorið
1½ bolli jasmínhrísgrjón
1½ bolli kókosmjólk
¼ bolli vatn
½ tsk. salt

Hitið kókosmjölið í kókosolíunni á stórri pönnu við miðlungshita, í 2-3 mínútur og hrærið í stanslaust á meðan svo það brenni ekki við. Hellið þá hrísgrjónunum út í og hrærið áfram í örfáar mínútur. Blandið þá kókosmjólkinni saman við, vatni og saltið.

Hitið upp að suðu og látið svo malla við vægan hita í rúmlega 10 mínútur, eða þar til vökvinn hefur gufað upp. Hrærið í öðru hvoru á meðan hrísgrjónin eru að eldast. Takið þá hrísgrjónin af hellunni, setið lok á pottinn og látið standa í um það bil 10 mínútur í viðbót.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert