Girnilegustu gleðistundir borgarinnar

Á Rok er boði upp á kampavíns-gleðistund þar sem kampavínsflaskan …
Á Rok er boði upp á kampavíns-gleðistund þar sem kampavínsflaskan er á 7600 krónur. mbl.is/Rok

Útsendarar matarvefjar mbl.is þræddu bari borgarinnar og könnuðu hvar bestu, frumlegustu, lengstu og ljúffengustu gleðistundirnar leyndust.

Pablo discobar býður upp á sérvalda kokteila á hálfvirði og skemmtilegt andrúmsloft í nokkuð óhefluðu umhverfi þar sem plötusnúður lemur bongótrommur, barþjónarnir eru með svitabönd og diskókúlan ræður ríkjum. Reyndar eru tilboðskokteilarnir ekki þeir mest spennandi á seðlinum svo við hvetjum þá til að vera með afslátt af öllum kokteillistanum! Þeir eru einnig með kampavínsmiðvikudaga þar sem kampavín og sérvaldir kokteilar eru á tilboði allt kvöldið.
Staðsetning: Veltusund 1
Tími: 16-18 alla daga
Tilboð: allur bjór á krana, allt vín í glösum og valdir kokteilar á 50% afslætti.


Bar Ananas er flippbar sem listamenn landsins dýrka og dá. Við mælum með að lýsa upp lífið og njóta tropical-andrúmsloftsins í afslöppuðu umhverfi.
Staðsetning: Klapparstígur 38
Tími: alla daga milli 16 og 20
Tilboð: Bjór frá 700 kr. og vínglas frá 800 kr. Daiquiri dagsins er á 1.600 krónur.

 

Matarkjallarinn er fágaðri útgáfa af gleðistund en þar má gjarna detta inn á lifandi píanótónlist. Tilvalið að enda þar og fá sér ef til vill smárétt. Við mælum með túnfisktartar og lárperu en sá réttur er borinn fram með heimagerðum nachos-flögum.
Staðsetning: Aðalstræti 2
Tími: 23-01
Tilboð: Bjór frá 650 kr., vínglas frá 800 og valdir kokteilar frá 1.190 kr.

Túnfisktartar á Matarkjallaranum.
Túnfisktartar á Matarkjallaranum. mbl.is/Ofeigur Lydsson


Tivoli
er með gott tilboð fyrir þá sem vilja fá sér nokkra sterkari drykki fyrir kvöldið.
Staðsetning: Hafnarstræti 4
Tími: alla daga milli 16 og 21
Tilboð: Bjór og vínglas á 700 kr., valdir kokteilar á 1.400 og G&T fyrir 1.000 kr.



Marbar 
er lítill bar við höfnina sem býður upp á gleðistund til klukkan 21 ólíkt flestum öðrum börum.
Staðsetning: Geirsgata 9
Tími: alla daga milli 18 og 21
Tilboð: lítill bjór á 550 kr., lítra bjór á 1.000 kr., G&T á 1.200 kr. og valdir kokteilar á 1.200 kr.



Veður
er með freyðivínsfimmtudaga. Þetta getur ekki klikkað. Okkur dettur fátt betra í hug en freyðivín eða kampavín til að hrista upp í lífinu.
Staður: Klapparstígur 33
Tími: alla daga frá 12-19.35 og kokteiltími milli 19 og 21.
Tilboð: Vínglas og bjór frá 800 kr., kokteilar á 1.500 kr. milli 19 og 21 og á fimmtudögum er glasið af freyðivíni á 1.000 kr., flaskan á 5.000 kr. og kampavínsflaska á 10.000 kr.

 

Gló Fákafeni er med gleðistund á morgnana, sem er snilldarþynnkubani. Á Tonic og kaffibarnum á Gló geturðu valið einn af fjórum vinsælustu drykkjum þeirra, yfirnáttúrulegan grænan, próteinríkan, Bulletproof kaffi eða Chaga Latte og fengið frítt skot með á 890 kr.
Staðsetning: Gló, Fákafeni.
Tími: frá 7.30-10 á morgnana
Tilboð: Heilsuskot fylgir með drykk á 890 kr. Morgunverðarskál, skot og kaffi á 890 krónur.

 

The Coocoo's nest býður upp á ítalska gleðistund eða svokallaðan apperativo. Með áfengum drykkjum fylgir frír smáréttur að vali kokksins úr eldhúsinu með. Smáréttirnir geta verið heimagerð súpa, súrdeigsbrúsetta eða hvað sem þeim dettur í hug. Við mælum með Aperol Spritz-kokteilnum.
Staðsetning: Grandagarður 23
Tími: alla daga milli 17 og 19
Tilboð: Með áfengum drykk fylgir frír smáréttur úr eldhúsinu eða 200 króna afsláttur ef þú vilt ekki smárétt.

Kokteilistinn á The Coocoo's nest er breytilegur.
Kokteilistinn á The Coocoo's nest er breytilegur. Íris Ann/mbl.is

Rok er nýlegur staður sem býður upp á spennandi gleðistundir. Þar getur þú fengið kampavínsglas og með fylgir lakkrís, jarðarber og melóna. Rok vildi geta boðið fjölbreyttari hópi af kúnnum valkostinn að kaupa sér kampavín án þess að þurfa að borga himinhátt verð og við tökum því fagnandi. Lakkrísinn passar einnig ákaflega vel með kampavíni!
Staðsetning:
Frakkastígur 26 a
Tími: frá 16-19 alla daga
Tilboð: Glas af Moët-kampavíni á 1.890 kr. eða flaska á 7.600 kr. Molto Negro Cava á 5.300 kr. flaskan og glasið á 1.490 kr.

Slippbarinn er þekktur fyrir metnað í kokteilgerð en barþjónarnir þar gera bittera og bragðefni frá grunni. Sérstakur kokteilsgleðiseðill er í boði sem breytist reglulega. Þar er meðal annars í boði Whishey sour, Old fashioned og Margaríta.
Staðsetning: Mýrargata 2
Tími: Milli 15 og 18 alla daga
Tilboð: valdir kokteilar á 1.200 kr., einfaldur í gos á 1.000 kr. Bjór á 500 kr. og vínglas á 700 kr.

Það er mikill metnaður fyrir kokteilgerð á Slippbarnum.
Það er mikill metnaður fyrir kokteilgerð á Slippbarnum. mbl.is/Árni Sæberg

Sæta svínið er skemmtilegur staður sem tilvalið er að hittast á í drykk og smárétt til að fóðra magann að innan áður en kokteilarnir komast að. Ef það er allt fullt á jarðhæðinni er notalegt loft efst á staðnum þar sem hægt er að koma sér vel fyrir með drykk.
Staðsetning:
Hafnarstræti 1-3
Tími: 15-18 alla daga
Tilboð: Kokteilar, léttvín í glösum og bjór á krana á hálfvirði.

mbl.is/Sæta Svínið

Uno er með mjög notalega setustofu þar sem iðulega hittast stórir hópar af vinkonum og hláturinn liðast um loftið.
Staðsetning: Hafnarstræti 1-3
Tími: 15 -19 alla daga.
Tilboð: 4 gerðir af bjór á krana á hálfvirði auk víns hússins í glösum. Valdir kokteilar á 1.200 kr. stk.

 

Apotek kitchen + bar er einn vinsælasti staðurinn til að hittast í drykk eftir vinnu. Staðurinn tekur ekki marga í sæti barmegin og því er um að gera að mæta tímanlega. Uppáhaldskokteilinn okkar er Black Cherry Bijou en uppistaðan í honum er ferskt avókadó. Tryllt gott!
Staðsetning:
Austurstræti 16
Tími: 15-18 alla daga
Tilboð: Kampavín í glösum og flöskum, allir kokteilar, bjór á krana og léttvín í glösum á hálfvirði.

mbl.is/Apótek
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert