Bjargaði eldhúsinu þó það tæki á taugarnar

Frank viðurkennir að það hafi tekið á taugarnar að skipta …
Frank viðurkennir að það hafi tekið á taugarnar að skipta út eldhúsinu enda mun meira verk en á horfðist í fyrstu. mbl.is/Árni Sæberg

Frank Arthur Blöndahl Cassata og unnusta hans, Hekla Elísabet Aðalsteinsdóttir, voru farin að hugsa sér til hreyfings en Frank hefur búið á Brávallagötunni í ein tíu ár. Staðan á húsnæðismarkaðnum setti þó strik í reikninginn og sáu þau hag sínum best borgið með því að eyða fremur kröftum sínum og fjármunum í að endurnýja eldhúsið í íbúðinni. Eldhúsið hefði verið lítið og gamaldags og því skyldi breytt. Með viljann og verkvitið að vopni var ráðist í framkvæmdir og útkoman varð betri en nokkurn hafði grunað.

Eldhúsið var ógeðslegt

Upphaflega átti bara að rífa gömlu innréttinguna niður og skipta henni út. Frank segir það hafa verið löngu tímabært enda hafi gamla innréttingin verið komin til ára sinna. „Hún var ógeðsleg. Það var allt morkið að innan og hurðirnar héngu varla á lömunum,“ segir hann og reiknað var með að verkið tæki hann og föður hans um tvær vikur.

Í ljós kom hins vegar að skipta þurfti um allar lagnir og rafmagn í veggnum og á endanum var sjálfur veggurinn tekinn niður líka og allt smíðað upp á nýtt. Það var ófyrirséður kostnaður sem ekki varð hjá komist vegna skemmda. „Við rifum líka loftið niður. Þetta voru svona seventís pappaflísar sem voru ekki upp á marga fiska. Þær fengu að fjúka og við fengum fjölskyldusmiðinn til að smíða í kjölfarið grind og gifsuðum loftið. Útkoman var rennislétt og fínt loft.“

Fyrir breytingu var eldhúsið að niður lotum komi ðog veggurin …
Fyrir breytingu var eldhúsið að niður lotum komi ðog veggurin ná bak við mikið skemmdur.
Á þessum tímapunkti var ljóstað mikið verk væri eftir og …
Á þessum tímapunkti var ljóstað mikið verk væri eftir og laga þyrfti bæði vegg og loft.
Frank stundar mastersnám í verkefnastjórnun sem kom sér án efa …
Frank stundar mastersnám í verkefnastjórnun sem kom sér án efa vel þegar eldhúsverkverfnið vatt upp á sig mb.is/Árni Sæberg



Dugleg að bjóða sér í mat

Auknum framkvæmdum fylgdi eldhúsleysi í umtalsvert lengri tíma en gert hafði verið ráð fyrir og segir Frank að það hafi haft mikil áhrif á mataræði þeirra. Neysla á skyndibita hafi aukist til muna auk þess sem þau hafi verið dugleg að bjóða sér í mat til foreldra sinna. Alls hafi framkvæmdirnar tekið tvo og hálfan mánuð en lengsta biðin hafi verið eftir borðplötunni. Þau hafi samt verið farin að nota eldhúsið þrátt fyrir borðplötuleysið en það hafi ekki verið hlaupið að því eins og gefur að skilja.

Frank og Hekla keyptu innréttinguna í Ikea og völdu dökkbrúnar framhliðar á neðri skápana. Efri skáparnir eru hvítir sem gefur eldhúsinu léttara yfirbragð. Öll eldhústæki voru jafnframt keypt í Ikea. Flísarnar eru úr Byko en flísar af þessari gerð hafa notið mikilla vinsælda undanfarin ár. Borðplatan er úr Fanntófelli en Frank segir að þau hafi ekki viljað þurfa að skeyta tveimur plötum saman sem þau hefðu þurft að gera ef þau hefðu tekið plötu úr Ikea. Því var farin þessi leið sem kemur sérlega vel út.

Á veggina var síðan settur fallega blár litur sem skapar róandi stemningu. Frank segir að aðalatriðið hjá þeim við hönnun eldhússins hafi verið að hafa það eins stílhreint og mínimalískt og kostur var.

Frank segir að lífið sé gjörbreytt eftir að nýja eldhúsið kom. „Ég er alltaf eldandi,“ segir hann og fær ekki nóg af. Það sama gildi um Heklu, kærustuna hans sem hann segir að sé líka síeldandi. Þetta er fjárfesting sem margborgar sig greinilega því bæði eykur það verðmæti íbúðarinnar sem og lífsgæði íbúanna eins og komið hefur á daginn.

Íbúðin er 68 fm svo gott skipulag er mikilvægt.
Íbúðin er 68 fm svo gott skipulag er mikilvægt. mbl.is/Árni Sæberg

Kostaði milljón

En hvað kostar slík framkvæmd? Frank segir að með öllu hafi kostnaðrinn verið milljón. „Það er með öllu, líka veggnum sem við urðum að rífa, nýjum pípulögnum og rafmagni og vinnu iðnaðarmannanna sem við fengum til að aðstoða okkar. Annars var verkið að stærstum hluta unnið af mér og pabba auk aðstoðar húsasmíðameistara í fjölskyldunni. Þetta var heldur meira en við lögðum upp með en á móti kemur að þetta varð mun meiri framkvæmd heldur en til stóð,“ segir Frank og er greinilega hæstánægður með vel unnið verk.

Öll tæki og inn-réttingin, að borðplötunni undanskilinni, eru úr Ikea.
Öll tæki og inn-réttingin, að borðplötunni undanskilinni, eru úr Ikea. mbl.is/Árni Sæberg
Allt á sinn stað og hver centimeter er nýttur.
Allt á sinn stað og hver centimeter er nýttur. mbl.is/Árni Sæberg
Eldhúsið er vel skipulagt.
Eldhúsið er vel skipulagt. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert