Helstu trixin við að versla í Costco

Það bíða sjálfsagt flestir spenntir eftir því að verslun Costco verði opnuð núna í maí en það eru kannski ekki allir sem vita að Costco er svokölluð stórverslun þar sem þú kaupir hluti í meira magni en allajafna. Fyrir venjulegan Íslending sem er ekki slíku vanur er ekki úr vegi að fá sérfræðing til að leiðbeina okkur um leyndardóma Costco svo við getum undirbúið okkur sem best fyrir heimsókn í verslunina.

Sá sem leynitrixunum deilir heitir Robert Kyle og er verslunarstjóri í Costco í Waltham í Massachusetts fylki í Bandaríkjunum.

Ekki búast við fimm tegundum af tómatsósu. Kyle segir að í Costco sé ekki lagt upp með úrval. Í mörgum verslunum séu tugir þúsunda vörunúmera en í Costco sé lagt upp með að þau séu ekki fleiri en fjögur þúsund. Keypt sé meira magn af hverri vöru og fyrir vikið fæst betra verð.

Sérðu eitthvað sem þig langar í? Keyptu það núna. Costco er alltaf á undan áætlun þannig að jólavörurnar eru yfirleitt uppseldar um miðjan desember. Þá máttu frekar búast við að rekast á garðhúsgögn fyrir vorið. Þannig að ef þú sérð eitthvað sem þig vantar eða langar í þá skaltu kaupa það strax því það er ekkert víst að það verði til næst þegar þú kemur.

Ef þú vilt smakka þá eru helgarnar málið. Frá fimmtudögum fram til sunnudags er boðið upp á smakk í versluninni.

Costco er skipulögð eins og fjársjóðsleit. Veistu ekki hvar hlutinn er að finna? Það er einmitt hugmyndin. Gangarnir eru ekki merktir í Costco til að starfsfólkið geti stöðugt breytt skipulaginu og komið fyrir nýjum vörum. Þetta er gert til að geta boðið upp á meiri fjölbreytni en gerir verslunarferðina að hálfgerðri fjársjóðsleit fyrir neytendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert