Bakan hennar Júlíu

Júlía Magnúsdóttir heilsumarkþjálfi hjá lifdutilfulls.com.
Júlía Magnúsdóttir heilsumarkþjálfi hjá lifdutilfulls.com. mbl.is/lifdutilfulls.com

Dásamleg baka með sætum kartöflum, spínati og „osti“, borin fram með ljúfri hvítlaukssósu að hætti Júlíu Magnúsdóttur heilsumarkþjálfa.

„Þessi baka er tilvalin fyrir stórt matarboð en þar sem hún geymist vel í kæli hentar hún einnig vel ef þið eigið annríkt og viljið hafa eitthvað sem auðvelt er að grípa til fyrir hádegis- eða kvöldverð. Bakan er sérlega trefjarík og hreinsandi og getur létt á meltingaróþægindum og bjúg, sem og slegið á sykurlöngun. Bakan er algjört lostæti og nauðsynlegt að hafa með henni ljúffenga hvítlaukssósu.“

mbl.is/lifdutilfulls.com

Möndlumjölsbotn:

3 msk. hörfræ, heil eða möluð
1 msk. psyllium husk-duft (en duftið gefur bestu áferðina)
4 bollar möndlumjöl
3 msk. ólífuolía/kókosolía
ögn af sjávarsalti

Hitið ofninn í 180°C. Hrærið hörfræ og psyllium husk út í ½ bolla af vatni og látið liggja í 10-15 mínútur (þetta virkar sem bindiefni fyrir botninn).

Sameinið öll innihaldsefni í stórri skál og hnoðið með höndunum þar til deigkúla myndast. Smyrjið 25 cm hringlaga bökunarform með olíu. Þrýstið deiginu ofan í það með fingrunum og látið það ná vel upp á hliðarnar. Forhitið botninn í ofninum í 20 mínútur.

Sætkartöflu- og spínatfylling:

1 hvítur laukur
1 msk. ólífuolía/kókosolía
1 stór sæt kartafla
4 bollar spínat (um 500 g)
1 ½ bolli kjúklingabaunir (um 400 g)
2 bollar næringarger (um 400 g)
1 tsk. basilíkukrydd
1 tsk. svartur pipar
½ tsk. salt

Skerið laukinn smátt og látið í stóran pott með olíunni. Skrælið sætu kartöfluna og skerið í litla munnbita (u.þ.b. ½ x ½ cm) og bætið út í pottinn. Eldið við miðlungshita í 30 mínútur eða þar til kartöflurnar verða mjúkar.

Bætið við kjúklingabaunum, spínati, næringargeri og kryddi ásamt ¼ bolla af vatni. Hrærið í u.þ.b. 5-7 mínútur og stappið lauslega. Látið krauma þar til spínatið er eldað og fyllingin orðin fallega gul.

Setjið fyllinguna á möndlubotninn og þekið vel. Bakið í 20 mínútur eða þar til bakan hefur fengið gullinn lit og berið fram með hvítlaukssósu.

Hæfilegt fyrir sex til átta.

Ljúf hvítlaukssósa

8 hvítlauksgeirar
1 bolli soðnar kjúklingabaunir
1 bolli ólífuolía
½ bolli safi kreistur úr sítrónu
½ tsk. paprikuduft
1 tsk. chilíduft
pipar og salt eftir smekk 

Léttsteikið hvítlauksgeirana á pönnu og setjið í matvinnsluvél eða blandara ásamt kjúklingabaununum sem búið er að skola. Hrærið þar til blandan er nánast kekkjalaus.

Bætið út í sítrónusafa, papriku- og chilídufti, pipar og salti. Hafið blandarann lágt stilltan og bætið olíunni hægt og rólega út í meðan hann vinnur. Geymið sósuna í kæli þar til hún er borin fram.

Hæfilegt með einni böku, u.þ.b. 2 bollar.

Júlía segir að sósan sé algjört dúndur með bökunni.
Júlía segir að sósan sé algjört dúndur með bökunni. mbl.is/lifdutilfulls.com
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert