Sumarsalat heilsuhjúkkunnar

Sumarlegt, hollt, saðsamt og virkilega gott!
Sumarlegt, hollt, saðsamt og virkilega gott! mbl.is/Ásthildur Björnsdóttir

Ásthildur Björnsdóttir, hjúkrunafræðingur, einka- og heilsumarkþjálfi og meistaranemi í geðheilbrigðisfræði, er mikill meistari í eldhúsinu. Hér er frumsamin uppskrift sem hún töfraði fram fyrir matarvef mbl.is.

„Ég er ofboðslega „season-all“ í matargerð. Á haustin er ég sjúk í súpur og á vorin er ég tjúlluð í salöt! Og þá meina ég alls konar og oft óhefðbundin salöt – en salötin þurfa að líta vel út og helst vera sem litríkust. Við mæðgurnar erum duglegar að prófa okkur áfram í alls kyns útfærslum og erum stundum að taka „salat-challenges“ saman þannig að úr verður skemmtileg salatveisla oft í marga daga í röð með ólíkum salötum.

Þessi uppskrift spratt einmitt fram eftir að við vorum búnar að vera í nokkurra daga salatmaraþoni og vorum við mjög sáttar, saddar og sælar með útkomuna; bollurnar eru æði og bleika sósan er guðdómleg ofan á. Fallegt og fáránlega gott!“

Innihald – falafel-bollur:

1 dós kjúklingabaunir, skolaðar og þerraðar
1 butternut squash – flysjað, fræhreinsað og skorið í litla teninga
1 heill hvítlaukur – hafður í hýðinu og aðeins toppurinn skorinn af þannig að geirarnir blasa við
1 rauðlaukur – meðalstór – grófsaxaður
2 vænar rauðrófur (ath. ekki flysjaðar og skornar niður – önnur er notuð í sósuna og hina má nota í salat)
½-¾ bolli ferskar kryddjurtir (t.d. steinselja og kóríander blandað saman)
1 bolli gróft haframjöl (t.d. tröllahafrar)
2 msk. hörfræ
2 msk. sólblómafræ
1 msk. chiafræ
1 tsk. turmerik
1 tsk. cumin
¼-½ tsk. cayenne-pipar
Svartur pipar og sjávarsalt eftir smekk
Ólífuolía

Innihald – bleika sósan

1 væn rauðrófa (sem hefur verið bökuð, óflysjuð og skorin)
½ bolli lífræn kaldpressuð ólífuolía
2 msk. rauðvínsedik
½ tsk. sjávarsalt
¼ tsk. svartur pipar 


Aðferð – falafel-kúlurnar:

1. Hitaðu ofninn í 180 gr.

2. Dreifðu butternut squash-teningunum ásamt rauðlauknum á bökunarpappír – skvettu smá ólífu yfir og kryddaðu með salti og svörtum pipar.

3. Pakkaðu heila hvítlauknum (án toppsins) í álpappír – en áður en lokað er makaðu þá ca. 1 tsk. af ólífuolíu yfir þar sem toppurinn var). Hvítlaukurinn er einnig settur á sömu ofnplötuna með squashinu og rauðlauknum.

4. Bættu rauðrófunum einnig við á sömu ofnplötu einsog þær koma úr moldinni – óflysjaðar og óskornar en þó skolaðar.

5. Bakað í ofni í um 40-50 mín. eða þar til squashið er orðið gullið og mjúkt.

6. Á meðan grænmetið er að bakast í ofninum er helmingurinn af haframjölinu settur í blender/matvinnsluvél og mulið nánast í duft. Blandað svo aftur saman við grófa haframjölið. (Óþarfi að gera þetta ef þú ert með fínt haframjöl).

7. Þegar grænmetið í ofninum er tilbúið þá er gott að láta það kólna aðeins. Álpappírinn utan af hvítlauknum er fjarlægður og geirarnir eru kreistir úr hýðinu – einnig hægt að plokka með gaffli.

8. Hvítlaukurinn, squash-teningarnir og rauðlaukurinn sett í matvinnsluvél ásamt haframjölinu, kryddjurtunum, fræjunum og öllu kryddinu. Blandað vel saman.

9. Þá er deigið tilbúið og nú er að móta litlar bollur á stærð við munnbita (minni en golfbolta) og þeim raðað á bökunarpappír.

10. Bakað í ofni við 180 gr. í um 40-50 mín. eða þar til bollurnar eru orðnar pínu stökkar. Látnar kólna. Æði að eiga þessar í ísskápnum til að nota í salöt í 2-3 daga og svo er einnig hægt að frysta.

11. Á meðan bollurnar bakast er hægt að gera rauðrófusósuna.


Aðferð – bleika sósan

1. Önnur rauðrófan er flysjuð og skorin gróft.

2. Ólífuolíunni, edikinu og kryddinu ásamt rauðrófunni blandað vel saman í blender/matvinnsluvél.

3. Geymd í lokuðu íláti í kæli og hægt að nota yfir salöt í 3-4 daga.


Meðlætið með falafel-bollunum var salat sem sett var saman í skyndi:

Spínat og grænkál

Avokadó

Kirsuberjatómatar

Rauðrófan (sem bökuð var með hinu grænmetinu)

Kínóasalat (kínóa, rauðlaukur, steinselja, kóríander, rauð paprika, grænt epli, granatafræ, sólblóma- og graskersfræ)

Svona salat er æði að eiga í lokuðu íláti í kæli og þá hægt að grípa í t.d. í hádeginu daginn eftir.

Ásthildur heldur úti blogginu maturmillimala.com
Ásthildur heldur úti blogginu maturmillimala.com
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert