Costco-vörurnar sem netið nötrar yfir

mbl

Við á Matarvefnum erum ákaflega spennt að sjá vöruúrvalið hjá Costco og þá aðallega ef um eitthvað nýtt er að ræða sem ekki hefur fengist áður hérlendis. Útsendarar okkar erlendis hafa þrætt Costco auk þess sem við höfum rætt við erlenda bloggara og lesið um uppáhaldsvörur þeirra. Hér koma nokkrar af þeim vörum sem erlendir bloggarar eru hvað ánægðastir með. Við vitum þó ekki hvaða vöruúrval verður hérlendis en illa hefur gengið að fá svör við hvaða matvara verður seld í Costco á Íslandi.

Eitt af helstu merkjunum sem Costco selur er Kirkland sem þeir framleiða sjálfir og íslenskir neytendur kannast ef til vill við þar sem merkið hefur veri er selt í Kosti. Undir Kirkland er að finna undirmerki sem er lífrænt. Athugið að flest allt er í mjög stórum pakkningum og því gætu minni heimili valið að versla inn með fjölskyldu eða vinum og skipta pökkunum á milli sín.

Alls konar hnetusmjör
Mikið útval er af hnetusmjöri í Costco. Möndlusmjörið þar ku vera ansi gott en einnig fæst hnetusmjör í dufti sem búið er að pressa olíuna úr. Okkur lýst nú eitthvað takmarkað á það!

Lífræn kaldpressuð kókosolía í risapakka 
Mömmubloggararnir segjast kaupa þennan risapakka og nota sem augnhreinsi, í matargerð, drykki, bakstur ofl. Þær eru væntanlega með litla krukku sem þær fylla á. Eru ekki allir pottþétt með nóg skápapláss eða búr? 

Vegan-próteindrykkir
Þó nokkrar grænmetisætur hafa mælt með þessum próteindrykkjum.



Haframúffur með hunangi 

Þessar múffur eru í hollari kantinum og innihalda hunang og hafra sem dæmi. Einn bloggaranna sagðist kaupa þessa kökubita því hann ætlaði alltaf að baka eitthvað hollt heima en gerði það aldrei.



Bauna- og ostaburrító

Það verður seint sagt að þessi kassi líti girnilega út en það eru þó ansi margir sem mæla með þessum frosnu burrító svo við látum ljótan kassann njóta vafans.



Edamamespaghettí

Við höfum ekki rekist  á slíkt hérlendis en netið vill meina að þetta sé ætt.



Sambazon Acaí Superfruit Packs

Frosin Acaí-ber í pakka til að nota í morgunverðadrykki og -skálar. Svipaðir pakkar hafa fengist í Krónunni en þeir innihalda viðbættan sykur. Í Nettó fæst Acaí-duft sem er án sykurs og inniheldur aðeins frostþurrkuð ber. Við erum að vona að Costco muni bjóða upp á Sambazon frosnu berjapakkana án viðbætts sykurs. Sambazone er ákaflega vinsælt í Bandaríkjunum og þeir reka meðal annars sín eigin kaffihús. Berjapakkarnir mokseljast í Costco vestanhafs.

Lífrænt frosið kjöt
Kirkland-merkið er meðal annars með frosið lífrænt nautahakk og kjúkling. Skyldi nautahakkið eiga séns í það íslenska?


Forréttaframboðið er galið 

Útsendarar okkar vilja meina að veisluglaðir einstaklingar muni tryllast við að sjá allt úrvalið af tilbúnum veisluréttum. Vissulega eru þeir misjafnlega góðir en meðal þess sem þykir bragðgott eru míní box með lífrænu Holly Moly guaqamole.

http://cleaneatingveggiegirl.com



Lífræn kalkúnaskinka
Plainville er fjölskyldufyrirtæki sem selur kalkúnakjöt sem inniheldur engan sykur og er án sýklalyfja og lífrænt ræktað. Skinkan er mjög vinsæl hjá þeim sem aðhyllast hreint matarræði en hún inniheldur þó vatn og salt.

 

Frosnir ávextir frá Mini Growers
Mikið úrval er af frosnum ávöxtum í Costco. Þessi blanda er mjög góð ef marka má erlenda bloggara sem segja blönduna þá bestu auk þess að vera lífræn og án viðbætts sykurs. Þessi tiltekna blanda inniheldur granateplakjarna, brómber, jarðarber, bláber og kirsuber.



Sykurlausar ostatertur frá David's Cookies
Ekki kemur fram með hverju terturnar eru sættar en samkvæmt stjörnugjöf á síðu verslunarinnar eru þær hið mesta lostæti. Þó vara einn kaupandi við að ofneysla sé varhugaverð þar sem sætuefni geta verið hægðamýkjandi. 



Love Beats-rauðrófur

Lífrænar eldaðar rauðrófur. Rauðrófur eru sífellt vinsælli í salöt, þeytinga eða sem meðlæti sökum hversu hollar þær eru. Samfélagsmiðlar elska þessar rauðrófur.



Kirkland frostþurrkaðir ávextir
Sniðugt nasl, til að toppa jógúrt með eða skreyta kökur. Við á Matarvefnum höfum stundum keypt frostþurrkaða ávexti erlendis og sett í heimagert granóla eftir að það hefur verið bakað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert