Sterkasti pipar heims notaður sem deyfilyf

Breskur garðyrkjusérfræðingur hefur að eigin sögn hannað sterkasta pipar heims. Svo sterkur er piparinn sagður að engum er ráðlagt að leggja sér hann til munns.

Piparinn hefur hlotið nafnið Dragon´s Breath og var reglum samkvæmt mældur á Scoville-skalanum sem notaður er til að mæla hversu sterkar matvörur eru. Fyrrverandi heimsmethafinn var Carolina Reaper-piparinn sem mældist 1,57 milljónir SHU en Dragon´s Breath mældist 2,48 milljónir SHU-eininga.

Hönnuður piparsins, Mike Smith, vann með prófessorum frá Nottingham Trent-háskólanum í Bretlandi en markmiðið var að þróa áburð sem héldi frá skordýrum. Verið er að kanna hvort hægt sé að nota olíuna úr piparnum sem náttúrulegt deyfilyf fyrir fólk sem er með ofnæmi fyrir hefðbundinni deyfingu.

Beðið er úrskurðar heimsmetabókar Guinness en að sögn talsmanna Guinness er málið í meðferð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert