Ofur-hollur morgunverður með hnetusmjöri

ljósmynd/minimalist baker
Þessi morgunverður finnst okkur vera einn sá allra snjallasti sem sögur fara af. Það tekur fimm mínútur að undirbúa hann og svo er hann látinn standa yfir nótt og viti menn, um morguninn bíður gómsætur og hollur morgunverður eftir þér. Þó að talað sé um hnetusmjör þá erum við að tala um hollustutýpuna sem setur ekki tilveruna á hliðina.
Það þarf einungis fimm hráefni í grautinn og hann er sérlega gómsætur þannig að þetta krefst ekki mikillar íhugunar. Þess má jafnframt geta að uppskriftin er vegan og glútenlaus.
ljósmynd/minimalist baker
Morgunhafrar með hnetusmjöri

Hafrar

  • 120 ml möndlumjólk
  • 9 g (3/4 tsk.) chia-fræ
  • 2 msk. náttúrulegt hnetusmjör (verður að vera hollt, t.d. frá Himneskt)
  • 1 tsk. hlynsíróp (má nota stevíu í staðinn)
  • 45 g (1/2 bolli) glútenlausir hafrar
Meðlæti
  • Niðursneiddir bananar, jarðarber eða brómber
  • Hörfræ eða auka chia-fræ
  • Granóla
Aðferð
  1. Setjið möndlumjólk, chia-fræ, hnetusmjör og hlynsíróp í krukku eða skál og hrærið saman með skeið. Athugið að ekki þarf að blanda möndlumjólkinni og hnetusmjörinu 100% saman heldur mega hnetusmjörstaumarnir fá að njóta sín.
  2. Bætið höfrunum við og hrærið smá í viðbót. Passið að allir hafrarnir séu í bleyti.
  3. Setjið lok eða eitthvað annað yfir og geymið í kæli yfir nótt (eða í 6 klst. hið minnsta).
  4. Daginn eftir er grauturinn tilbúinn til neyslu og þá er upplagt að skreyta hann með meðlætinu hér að ofan.
ljósmynd/minimalist baker
ljósmynd/minimalist baker
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert