Hönnunarvörur í eldhúsið í Costco

ljósmynd/Smeg

Eins og flestir ættu að vera farnir að vita er vöruúrval í Costco ekki alltaf það sama og hingað til lands berast oft gámar sneisafullir af merkjavöru á góðu verði. Þá er lykilatriðið að kaupa vöruna enda hik oft það sama og tap. 

Þessa dagana er þó nokkuð úrval af vandaðri merkjavöru þar að finna en við setjum þann fyrirvara við þessa frétt að við vitum ekki hvort varan sé enn til staðar eða uppseld. 

Ísskápurinn: Það sem við tókum fyrst eftir var þessi forláta Smeg-ískápur sem skreyttur er með Swarovski-kristöllum. Skápurinn er gylltur og forkunnarfagur. Hann kostar 299.999 krónur. Smeg-ísskápar fást hér á landi og kostar sambærilegur ísskápur – þó án allra kristalskreytinga – 199.900 krónur.

Ljósmynd/Smeg

Brauðristin: Dualit er merki sem margir eru hrifnir af og hafa brauðristarnar frá þeim verið afskaplega vinsælar um heim allan. Hægt er að fá fjögurra sneiða brauðrist í Costco þessa dagana og kostar hún 23.990 krónur. Sambærileg vél út úr búð hér á landi kostar 38.311 krónur. 

Ljósmynd/Dualit

Hraðsuðuketill: Hér er enn og aftur um Dualit að ræða og nú er það sérdeilis vandaður hraðsuðuketill sem kostar 9.999 krónur. Við gátum ekki fundið sambærilegan ketil hér á landi og vitum því ekki hver sparnaðurinn er.

Ljósmynd/Dualit

Uppvöskunargræjan: Joseph Joseph er vinsælt merki og meðal annars selt í Epal. Þetta bráðsniðuga uppvöskunarsett kostar 2.999 krónur en við fundum ekki sambærilega vöru hér á landi. Á heimasíðu Joseph Joseph er hins vegar hægt að kaupa græjuna og kostar hún þar 3.858 krónur. 

Ljósmynd/Joseph Joseph
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert