Fimm hlutir sem er gott að eiga í frystinum

Góð frystikista getur miklu breytt.
Góð frystikista getur miklu breytt. ljósmynd/Amazon

Það kannast allir við að vera einhvern tímann á síðustu stundu og kvöldmaturinn stefnir í stórklúður. Þá er gott að vera með plan b tilbúið í frystinum en við tókum saman lista yfir algenga og bráðnauðsynlega hluti sem foreldrar eru sammála um að sé nauðsynlegt að hafa í frystinum, einmitt til að koma í veg fyrir að kvöldmaturinn kúðrist.

Þú getur að sjálfsögðu gert þinn eigin lista og auðvitað þarf hann að taka mið af matarvenjum fjölskyldunnar og hvað börnunum þykir gott að borða. Hafa ber í huga að maturinn verður að vera í litlum einingum til að hægt sé að þíða hann með sem skemmstum fyrirvara. Þannig er lítill tímasparnaður fólginn í því að þurfa að þíða kiló af nautahakki korter í kvöldmat. Það er hreinlega plan sem gengur illa upp. En örvæntið eigi. Hér er listi yfir fimm fæðutegundir sem nauðsynlegt er að eiga í frystinum því þá ertu alltaf örugg/ur með að eiga eitthvað í matinn.

IKEA-kjötbollan. Kjötbollurnar (sem eru íslensk framleiðsla) eru smáar og bragðgóðar og því tekur það þær stuttan tíma af þiðna. Jafnvel er hægt að skella þeim beint í ofnfast mót og inn í ofninn þó að einhverjir sérfræðingar vilji meina að betra sé að þíða matinn fyrst. Bollurnar eru bragðgóðar og flest börn elska þær.

Plokkfiskur. Lítill pakki af plokkfiski er ekki lengi að þiðna en flestir elska plokkfisk. Því teljum við hverjum frysti nauðsynlegt að innihalda svo mikið sem einn pakka eða poka af frosnum plokkfiski til að nota í neyðartilfellum. 

Gulrótarbuff frá Heilsuréttum fjölskyldunnar. Eðalhjónin i Eyjum hafa sett sér það markmið að auðvelda líf okkar hinna með greiðum aðgangi að tilbúinni hollustu. Gott er að eiga alltaf gulrótarbuff í frystinum til að grípa í en þau er sérlega vinsæl hjá þeim yngstu í fjölskyldunni.

Brokkólí. Það er nauðsynlegt að hafa grænmeti með matnum og frosið brokkólí er algjör snilld. Þú bara hendir því í pott og bíður eftir að suðan komi upp. Til að gera það sérlega girnilegt er ekki úr vegi að setja smá smjör og kannski oggulítið salt yfir það.

Frosnir ávextir. Það er fátt sem reddar málunum betur þegar allir eru svangir og tíminn lítill – til dæmis á morgnana – en að henda í ávaxtaþeyting. Þá blandar maður skyri eða jógúrt saman við frosna ávexti og úr verður hreinasta dásemd. Klikkar aldrei og er alltaf nauðsynlegt að eiga í frysti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert