IKEA í átak gegn matarsóun

Áætlað er að meðalmatarsóun á dæmigerðum IKEA-veitingastað sé um 300 …
Áætlað er að meðalmatarsóun á dæmigerðum IKEA-veitingastað sé um 300 kíló á dag. Ljósmynd: IKEA

IKEA er ekki bara stærsti húsgagnaframleiðandi heims heldur einnig ein stærsta veitingakeðja í heimi þótt mörgum þyki það skrítið. Nú hefur fyrirtækið sett sér það markmið að minnka matarsóun um helming fyrir mitt ár 2020. 

Samkvæmt upplýsingum frá IKEA er dagleg matarsóun um 300 kíló á hvern veitingastað. Ylva Magnusson, talsmaður matardeildar verslunarinnar, sagði að veitingahús og matvöruverslanir séu undir stöðugri pressu um að minnka matarsóun og miðað við að gestir á veitingastöðum IKEA hafi verið 650 milljónir talsins í fyrra má áætla að 43 þúsund tonnum af mat hafi verið fargað í fyrra. 

Magnusson greindi frá því að verkefnið hefði hafist í Svíþjóð í desember þar sem 84 veitingastaðir hafi breytt verkferlum og fylgst nákvæmlega með sóuninni. Á þessum tíma hafi sóunin minnkað um 79 tonn.

„Miðað við að meðalrétturinn hjá okkur kosti 550 krónur höfum við náð að forða 100 milljónum króna frá því að lenda í ruslinu,“ segir Magnusson um aðgerðina sem mun í framhaldinu verða tekin upp á veitingastöðum fyrirtækisins um heim allan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert