Marokkóskur kjúklingaréttur - meiriháttar góður

Framandi, saðsamt og sjúklega gott.
Framandi, saðsamt og sjúklega gott. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Albert Eiríksson svíkur ekki frekar en fyrri daginn en þessi réttur hittir beint í mark. Hér töfrar hann fram marókóskan kjúklingarétt sem fer með bragðlaukana á suðrænar slóðir með þurrkuðum ávöxtum og framandi kryddum.

„Þessi réttur hentar vel í Tagínu (marokkóskur leirpottu). Ef þið eigið ekki slíka græju þá er best að setja í eldfast form og elda í ofni. Eitt af því sem einkennir marokkóskan mat er að fjölmörg krydd eru notuð í sama réttinn og með þeim eitthvað sætt, oftast þurrkaðir ávextir. Í þessari uppskrift eru rúsínur og döðlur.“

Marokkóskur kjúklingaréttur

ca 500 g kjúklingur í bitum
2 msk olía
2 msk smjör
2 hvítlauksrif, söxuð
salt
1/3 tsk múskat
1/2 tsk kanill
1 tsk engifer
1 tsk kúmín
1 tsk kóríander
1/2 tsk pipar
smá cayennepipar
1 1/2 - 2 ds tómatar í dós
2 ds kjúklingabaunir
1 tsk vanilla
1/3 b rúsínur
1/3 b döðlur, saxaðar gróft
Ferskt kóríander til skrauts.

Setjið olíu og smjör í pott og brúnið kjúklinginn, takið hann til hliðar. Bætið við öllum kryddunum og steikið við lágan hita í nokkrar mínútur.

Bætið kjúklingunum saman við ásamt  tómötum, kjúklingabaunum (hellið vatninu af þeim og skolið), vanillu, rúsínum og döðlum.

Setjið í eldfast mót, álpappír yfir og bakið við 150°C í rúma klst. Stráðið vel af fersku kóríander yfir áður en borið er á borð. Berið fram með hrísgrjónum.

Albert er endalaus uppskriftauppspretta.
Albert er endalaus uppskriftauppspretta. mbl.is/Hanna Andrésdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert