Skotheld ráð til að hlaupa ekki í spik í fríinu

Allar líkur eru á því að maður borði minna ef …
Allar líkur eru á því að maður borði minna ef maður er með svona grímu. mbl.is/skjáskot

Það er fátt betra en að slappa af í sumarfríi og borða algjöra vitleysu. Þá nýtir fólk tækifærið og gerir vel við sig í mat og drykk enda um hálfgerða uppskeruhátíð að ræða eftir vel unnin störf. En oftar en ekki hleypur fólk í spik sem útskýrir kannski af hverju allt fyllist hjá líkamsræktarstöðvunum á haustin. Við á Matarvefnum erum sérlega meðvitaðar um þetta vandamál og ákváðum því að deila með ykkur uppáhaldsráðum okkar um hvernig eigi að forðast að fitna í fríinu.

Vertu með lífsmarki. Í því felst sú þumalputtaregla að fyrir hverja máltíð þarftu að hreyfa þig smá. Hvort sem það er hringur í kringum sundlaugina eða eitthvað sambærilegt. Margir hreyfa sig eins lítið og þeir mögulega geta og gjalda þess síðar en það er magnað hvað smá hreyfing getur bætt líðanina. Taktu með þér strigaskó og farðu jafnvel út að ganga í morgunsárið svona rétt til að fá súrefni í lungun og koma blóðinu á hreyfingu. 

Hamingjan býr ekki í beikoni. Nú eru eflaust margir ósammála en allir þeir sem elska beikon vita (innst inni) að eintómt beikonát endar ekki vel. Gerðu vel við þig en ekki of vel. Mundu að innst inni hefurðu meiri sjálfsaga en köngull og þú þarft ekki að panta þér extra beikon í ÖLL mál. 

Haltu meltingunni í lagi. Margir kannast við að meltingin stoppi í útlöndum. Breytingar á samsetningu fæðunnar (og mögulega hreyfingarleysi) valda því oft að klósettferðum fækkar og upplifa margir miklar kvalir enda uppþemdir. Taktu með þér magnesíumduft og taktu ráðlagðan skammt á hverju kvöldi. Það tryggir eðlilegar og góðar hægðir á hverjum morgni sem bætir lífsgæðin til muna.

Settu þér mörk. Vertu búin að setja þér mörk fyrir fram. Til dæmis hvað þú ætla að drekka mikið á dag, að þú borðir ekki bæði sætt og áfengt á sama tíma og fleira í þeim dúr. Galdurinn hér er að vera með meðvitund og gæta ákveðins meðalhófs (sem margir eiga reyndar erfitt með). Sumir hafa tekið með sér sérstaka grímu til að borða minna eða látið víra saman á sér kjálkana (djók).

Raunhæfar væntingar. Staðreyndin er sú að þú ert að fara í frí. Planið er að hreyfa sig sem minnst og gera vel við sig í mat og drykk. Þú munt fitna og það er allt í lagi. Lykilatriðið hér er að fara ekki í niðurbrot þegar heim er komið. Vertu fremur raunsær og áætlaðu væntanlega aukaþyngd. Vertu síðan með plan um að losna við þau. En númer eitt tvö og þrjú er bannað að eyðileggja gott frí með því að hafa áhyggjur, drekka of mikið, fá hægðatregðu og bugast síðan úr sjálfshatri þegar heim er komið.

Þetta er frí – njóttu þess :)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert