70% reyndust falsaðar

Könnun í Bandaríkjunum leiddi í ljós að 70% ólífuolíutegunda sem seldar eru í almennum verslunum í Bandaríkjunum eru ekki gerðar úr ólífum. Oftar en ekki var um að ræða ódýrari olíur eins og canola-olíu eða sólblóma og þær merktar sem ólífuolía.

Samkvæmt könnuninni reyndust sjö af stærstu framleiðendum ólífuolíu í Bandaríkjunum vera með olíu drýgða með ódýrari olíum.

Það var háskólinn í Kaliforníu sem fékk það verkefni að rannsaka sýni úr 124 tegundum af ólífuolíutegundum. Um 70% reyndust alls ekki hreinar ólífuolíur sem þykja sláandi fréttir fyrir iðnaðinn.

Sambærilegt mál kom upp á Ítalíu árið 2008 þegar átakið Gyllta olían eða Operation Golden Oil var hrint í framkvæmd þar sem 500 lögreglumenn fóru samtímis til olíuframleiðenda. Leiddi það átak til þess að 85 framleiðslustöðvum var lokað. Þótti merkilegt hvað framleiðendur lögðu á sig við að falsa olíuna en notuð voru bæði litar- og lyktarefni til að fela svikin. 

Sambærilegt mál kom einnig upp í Ástralíu þar sem falsanir reyndust tíðar og nú eru þær olíur þar í landi sem staðist hafa próf merktar sérstaklega.

En hvernig er hægt að sannreyna að olían sé ekta? Setjið flöskuna í ísskáp í hálftíma. Ef olían byrjar að kekkjast þýðir það að hún sé ekta þar sem hún inniheldur mikið af ómettaðri fitu. 

Ef olían breytist hins vegar ekki neitt er hún blönduð eða óekta. 

Til að vera viss er samt alltaf best að leita að olíu með opinbera gæðavottun því greinilegt er að ekki er of varlega farið í þessum efnum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert