Venjuleg stálpanna öðlast teflon-líka eiginleika

Sagt er að hægt sé að breyta venjulegri stálpönnu þannig að hún verði eins og það sem kallað er nonstick á ensku eða það sem við tölum venjulega um sem teflon húð.

Þó er ekki um að ræða teflon (sem er ákveðið efni sem panna er húðuð með) heldur er stálpannan meðhöndluð á þann hátt að það festist ekkert á henni og það þykir ákaflega eftirsóknarvert enda fátt meira svekkjandi en matur sem er pikkfastur á pönnunni.

Við rákumst á skemmtilega grein á The Kitchn-vefnum þar sem verið var að prufa aðferð sem átti að veita stálpönnunni þessa teflon-líku eiginleika. Frábæru fréttirnar eru að að aðferðin svínvirkar en hún er svohljóðandi:

Hitið stálpönnunna á fremur háum hita í tvær mínútur. Hellið nægu magni af grænmetisolíu til að þekja botninn með þunnu lagi. Hitið olíuna þar til hún fer að rjúka eða í um sex mínútur eða svo. Þegar reykurinn er farinn að myndast takið pönnuna af eldavélinni og látið kólna (hér má setja hana út eða láta hana standa á eldhúsbekknum. Alls ekki setja hana í kæli).

Þegar pannan er orðin köld skal hella olíunni af pönnunni og þerra pönnuna með eldhúspappír. Á þetta að duga til að ekkert festist við pönnuna á næstunni.

Athugið að sama aðferð er notuð á steypujárnspönnur og potta.

Mikilvægt er að nota olíu sem þolir mikinn hita eins og canola-olíu. Kókosolía virkar ekki. Forðast skal að þvo pönnuna milli þess sem hún er notuð. Þurrkið bara innan úr henni. Þegar pannan þarf óhjákvæmilega á þvotti að halda (sem mun gerast) skal nota sápu og vatn en þið missið olíuhúðina innan úr henni og þurfið því að endurtaka ferlið hér að ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert