Kjúklingasnitsel með bbq-sósu að hætti Lindu

Linda Björk Ingimarsdóttir heldur mikið upp á þennan stökka kjúklingarétt.
Linda Björk Ingimarsdóttir heldur mikið upp á þennan stökka kjúklingarétt. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

„Þessi réttur er í miklu uppáhaldi hjá öllum í fjölskyldunni. Hann er einfaldur og tekur ekki mikinn tíma að gera. Gott er að nota afganga í salat daginn eftir ef einhverjir verða. Stjarnan í þessari uppskrift er bbq-tómatsósa sem við erum að smyrja á allt hér á mínu heimili,“ segir Linda Björk Ingimarsdóttir matgæðingur Matarvefjarins.

4 stk. kjúklingabringur
3 egg
3 bollar brauðraspur, ég nota panco rasp
1 bolli heilhveiti
¼ bolli möluð sesamfræ og meira til skrauts
salt og pipar 

Reykt barbecusósa
½ bolli Reykt tómatsósa frá Mr Organic
2 msk. Worcestershire-sósa
1 msk. soyja-sósa
1 msk. mirin-sósa, er í sushi-deildum í matvörubúðum.
1 msk. hunang eða hlynssíróp
1 ½ tsk. dijon-sinnep
¼ tsk. hvítlauksduft

Öllu blandað saman í skál og hrært vel saman, geymist í kæli.

Kjúklingurinn og samsetning:

Hitið ofninn á 180 gráður

Malið sesamfræin og blandið þeim saman við brauðraspinn og setjið á djúpan disk eða fat.

Skerið bringurnar langsum svo þið fáið tvö stór stykki úr hverri bringu. Gott er að berja þau aðeins með kjöthamri.

Saltið og piprið hveitið og setjið á djúpan disk.

Pískið eggið í skál og setjið til hliðar.

Veltið fyrst kjúllanum upp úr hveitinu og setjið það svo í eggið og að lokum í raspinn.

Þegar allar bringurnar eru tilbúnar eru þær steiktar í olíu í djúpri pönnu. Olían þarf að vera um 1 cm að dýpt. Leggið svo kjúllann fyrst á eldhúsrúllupappír og svo á smjörpappír og bakið í gegn í ofninum í 10-15 mínútur. Á meðan kjúllinn er í ofninum er sósan gerð. Auðvitað má steikja hann alveg í olíunni en mér þykir gott að geta sett hann í ofninn, svo ekki er eins mikil bræla og ég get gert allt annað sem fara á með réttinum tilbúið á meðan hann mallar í ofninum.

Með þessum rétti finnst mér gott að borða smátt skorið kínakál, kartöflur eða pasta, en það má í raun borða þetta með hverju sem er.

Sósan er dúndurgóð!
Sósan er dúndurgóð! mbl.is/Hanna Andrésdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert