Skyr-parfait í veisluna

Uppskriftin hér að neðan dugar í meðalstórt eldfast mót eða …
Uppskriftin hér að neðan dugar í meðalstórt eldfast mót eða um það bil 50 lítil einnota staupglös (5 cl). mbl.is/eldhussogur.com

Dröfn, matgæðingur á eldhússögum, hélt guðdómlega smart útskriftarveislu fyrir skemmstu. Hún notaði heita pottinn undir bjór og bauð upp á trylltar veitingar eins og henni einni er lagið. Við fengum uppskrift að girnilegum skyreftirrétti frá henni sem er sannarlega sumarlegur og smart.

„Skyr-parfait (þó svo að þetta sé ekki beint ”parfait“ samkvæmt tæknilegum skilgreiningum) er mjög skemmtilegur réttur að bjóða fram á smáréttaborði en það er vissulega líka hægt að setja hann í stórt form og bera hann fram þannig við önnur tækifæri. Ekki skemmir fyrir að þetta er réttur sem er best að búa til daginn áður en hann er borinn fram. Ég skreytti glösin með bláberjum annars vegar og ástaraldin hins vegar, en það er hægt að nota ýmis önnur ber. Uppskriftin hér að neðan dugar í meðalstórt eldfast mót eða um það bil 50 lítil einnota staupglös (5 cl). Skeiðarnar eru úr Söstrene grene.“

Uppskrift:

  • 1 stór dós vanilluskyr (500 ml)
  • 1/2 l rjómi
  • 1 vanillustöng
  • 260 g Lu-kanilkex
  • 200 g frosin hindber
  • 1 msk. sykur
  • Bláber (eða önnur ber) og/eða ástaraldin til skreytinga
  • 50 stk. 5 cl einnota staup og skeiðar

Vanillustöngin er klofin og vanillufræin skafin úr. Rjóminn er þeyttur og þegar hann er hér um bil fullþeyttur er skyrinu, ásamt vanillufræjunum, bætt út og þeytt í smá stund til viðbótar eða þar til skyrið hefur blandast vel við rjómann. Digestive-kexið er mulið fínt í matvinnsluvél. Hindberin látin þiðna og síðan hituð í potti, sykri blandað vel saman við. Blandan látin kólna. Því næst er skyrblöndunni komið fyrir í sprautupoka. Dálítil kexmylsna er sett með teskeið í botninn á hverju glasi. Því næst er skyrblöndu sprautað í glasið, um það bil til hálfs. Næst er sett dálítið hindberjamauk ofan í glasið, þá kexmylsna, aftur skyrblanda og loks er skreytt með smá kexmylsnu og bláberi eða ástaraldin. Best er að geyma glösin í kæli yfir nótt og bera fram daginn eftir.

Fullkomin ástæða fyrir því að fá sér heitan pott!
Fullkomin ástæða fyrir því að fá sér heitan pott! mbl.is/eldhussogur.com
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert