Grillað með Tobbu: Ævintýralega auðvelt og gott

Gestur þáttarins er Rut Helga­dótt­ir mat­gæðing­ur, en Rut rek­ur Bita­kot og rit­stýrði Gest­gjaf­an­um um ára­bil. Rut sýnir hér og sannar af hverju hún er ókrýnd matardrottning Íslands en réttirnir eru í senn einstaklega bragðgóðir, ævintýralega spennandi og merkilega auðveldir í framkvæmd. 

Grillaðar risarækjur vafðar parmaskinku og penslaðar með basilolíu

  • Risarækjur
  • Parmaskinka
  • hnefafylli basil
  • 1 dl góð ólífuolía
  • 2 msk. sítrónusafi
  • 1 tsk. hunang
  • salt og pipar

Þræðið rækjurnar á litla pinna sem hafa legið í vatni í um 30-40 mín. Vefjið hverja rækju með skinku og þræðið upp á pinnana. Setjið basil, ólífuolíu, sítrónusafa og hunang í matvinnsluvél eða lítinn blandara og þeytið þar til basilblöðin eru vel söxuð. Bragðbætið með salti og pipar eftir smekk og penslið rækjupinnana með blöndunni. Snögggrillið við frekar mikinn hita þar til rækjurnar hafa fengið á sig bleikan lit. Berið fram sem smárétt eða sem forrétt á klettasalatbeði með góðu súrdeigssnittubrauði.

Hunangspenslaðar ferskjur með kókosmascarpone-kremi og kókosmakkarónutopp

  • 4 ferskjur  skornar í tvennt og steinninn fjarlægður
  • 1-2 msk. hunang
  • 4 msk. mascarponeostur
  • 1 dl léttþeyttur rjómi
  • 1 msk. hrásykur eða annað sætuefni
  • 1/2 dós kókosmjólk
  • 4-5 makkarónukökur
  • 2-3 msk. kókosmjöl
  • 1 msk. smjör

Byrjið á að gera ostakremið. Þeytið mascarponeostinn með rjómanum og sykrinum. Bætið kókosmjólkinni út í og geymið kremið í kæli. Myljið makkarónukökurnar t.d. með því að setja þær í poka og kremja með kökukefli. Setjið mylsnuna í skál og bætið kókosmjölinu út í. Bræðið smjörið og  blandið saman við kókosmylsnuna. Leggið ferskjuhelmingana á grillbakka og penslið með hunangi. Grillið þar til ferskjurnar fara að mýkjast og eru orðnar heitar. Setjið skeið af rjómaostakreminu yfir hverja ferskju og stráið síðan kókosblöndunni yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert