Hjónabandssæla með nutella – beint frá Ítalíu

Virkilega góð kaka sem þó enginn borðar mikið af. Því …
Virkilega góð kaka sem þó enginn borðar mikið af. Því betur fer enda sannkölluð bomba! mbl.is/anitalianinmykitchen.com

Við fjölskyldan erum nýkomin heim eftir tveggja vikna ferð um hina dásamlegu og bragðmiklu Ítalíu. Eins og þeir sem þekkja Ítalíu vita þá er klassískur ítalskur morgunverður mjög sérkennilegur. Á einu hótelinu sem við gistum á voru 15 dísætar tertur uppistaða morgunverðarins ásamt ljúffengu kaffi. Ég gat illa hugsað mér að borða dísætar kökur í morgunverð en rannsakaði auðvitað terturnar mjög ítarlega. Nokkrar þeirra minntu helst til á hjónabandssælu og voru með ýmiss konar sultum en ein þeirra var þó syndsamlega girnileg og hana – já ég játa mig seka – smakkaði ég klukkan 8 um morgun! Kakan var ákaflega góð en ég er viss um að íslenska útgáfan af hjónabandssælu með haframjöli væri betri á móti dísætu nutella-inu.

Fyrir þá sem ekki vita þá er nutella einmitt upphaflega frá Ítalíu – frá Piedmont þar sem gómsætar heslihneturnar vaxa. Upphaflega var nutella leið til að drýgja kakóið í seinni heimsstyrjöldinni þegar kakóskortur gerði vart við sig en bakari einn, Pietro Ferrero í Piedmont, ákvað að blanda hráu kakó og sykri saman við heslihnetumauk til að drýgja súkkulaðið í bakstur. 

Hér kemur svo uppskriftin að þessari hefðbundnu ítölsku nutellatertu með stökkum toppi. Uppskriftin er fengin frá anitalianinmykitchen.com.

Deig og toppur:
300 g hveiti
100 g sykur
2 tsk. lyftiduft
Klípa af salti
100 g kalt smjör í teningum
1 egg

Fylling:
1-2 bollar nutella 

  1. Hitið ofninn í 180 gráður. 
  2. Smyrjið smelluform af stærðinni 20-24 með smjöri.
  3. Hrærið saman í stóra skál hveiti, sykri, lyftidufti og salti.
  4. Bætið köldu smjörinu varlega við (hrærivél) svo deigið loði þétt saman líkt og bökudeig.
  5. Bætið egginu við og blandið uns þétt deig myndast sem loðir vel saman en molnar þó milli fingra.
  6. Setjið 2/3 af deiginu ofan í mótið og þrýstið því niður.  
  7. Setjið nutella yfir botninn og myljið restina af deiginu yfir svo það hylur súkkulaðið nánast alveg.
  8. Bakið í 30-40 mínútur eða þar til toppurinn er tekinn að gyllast. Kælið alveg áður en kakan er skorin. 
mbl.is/anitalianinmykitchen.com
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert